Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Oddný G. Harðardóttir, fyrrverandi formaður flokksins, gagnrýna harðlega að skýrsla starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum hafi ekki verið birt almenningi og Alþingi fyrr en eftir þingkosningar.
Eins og Stundin fjallaði um í fyrradag hefur skýrslan legið fyrir í fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá því í byrjun október, um mánuði áður en gengið var til þingkosninga, en hún var ekki birt fyrr en í dag eftir að fjölmiðlar og þingmenn höfðu óskað eftir aðgangi að henni á grundvelli upplýsingalaga.
Samkvæmt niðurstöðum starfshópsins má áætla að í lok ársins 2015 hafi uppsafnað umfang eigna og umsvifa Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 legið á bilinu 350-810 milljörðum króna. Þá telur starfshópurinn að mögulegt tekjutap hins opinbera vegna vantalinna eigna geti numið allt frá 2,8-6,5 milljörðum árlega miðað við gildandi tekjuskattslög.
„Það er skandall ef rétt er að setið hafi verið á henni fyrir kosningar og á meðan að á stjórnarmyndunarviðræðum stendur,“ skrifar Oddný Harðardóttir um skýrsluna í Facebook-færslu. Logi tekur í sama streng: „Nú verður fjármálaráðherra að svara því strax af hverju skýrsla um eignir Íslendinga á aflandssvæðum var ekki birt fyrir kosningar! Gleymum því ekki að þær voru ástæðan fyrir því að þing var rofið og boðað til kosninga.“
Fleiri hafa látið sams konar sjónarmið í ljós:
Eins og Panama-skjölin vörpuðu ljósi á átti fjármálaráðherra sjálfur hlut í aflandsfélagi og jafnframt Benedikt Sveinsson, faðir hans. Báðir eru frændur og fyrrverandi viðskiptafélagar Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar sem útlit er fyrir að verði næsti fjármálaráðherra.
Í skýrslu starfshópsins er líkum leitt að því að uppsafnað fjármagn á aflandssvæðum vegna ólögmætrar milliverðlagningar í vöruviðskiptum yfir tímabilið 1990-2015 geti verið á bilinu 140-160 milljarðar króna. Einnig var stuðst við upplýsingar um eignir í stýringu erlendis sem hafa verið notaðar til þess að áætla umfang aflandseigna, en starfshópurinn telur umfang þeirra geta verið á bilinu 110-350 ma.kr. Þá eru óskráðar fjármagnstilfærslur milli landa taldar geta numið á bilinu 100-300 ma.kr.
Stundin mun fjalla nánar um efni skýrslunnar um helgina.
Athugasemdir