Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra nýtur ekki sömu velvildar og hann naut áður af hálfu áhrifamikilla afla í sjávarútvegi og landbúnaði. Þá er staða hans í Norðvesturkjördæmi talin hafa veikst. Ýmsir þættir spila þar inn í, en staðfastur stuðningur ráðherrans við viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi vegur líklega þyngst.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar leitar Gunnar Bragi að útgönguleið úr pólitík. Hefur sú hugmynd verið viðruð meðal stjórnarliða að hann verði skipaður sendiherra áður en kjörtímabilinu lýkur. Tregða mun vera við þetta meðal sjálfstæðismanna og einn viðmælandi Stundarinnar úr stjórnarliðinu segir að forystu Sjálfstæðisflokksins hugnist ekki að Gunnar Bragi verði skipaður sendiherra. Hins vegar er bent á að eftir skipun Geirs H. Haarde sem sendiherra í Washington eigi Framsóknarflokkurinn inni sendiherrastól.
Baklandið brestur
Áður en Gunnar Bragi hóf þátttöku í stjórnmálum starfaði hann á verslunarsviði Kaupfélag Skagfirðinga og sem framkvæmdastjóri bensín- og veitingasölunnar Ábæjar á Sauðárkróki. Mikið hefur mætt á honum eftir að hann var skipaður utanríkisráðherra sumarið 2013. Hann sætti harðri gagnrýni þegar hann dró aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka án þess að málið fengi þinglega meðferð. Margir andstæðingar Evrópusambandsins fögnuðu þessu og gátu þeir sem helst óttuðust breytt samkeppnisumhverfi vegna mögulegrar Evrópusambandsaðildar andað léttar.
Athugasemdir