„Vinstrimenn virðast trúa því að það verði til verðmæti við það eitt að hækka skatta,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í kosningaauglýsingu sem birtist á vef Sjálfstæðisflokksins. Þá hefur Samband ungra sjálfstæðismanna dreift mynd af forystufólki Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata á Facebook undir yfirskriftinni „Þau vilja hækka skattana þína“.
Eins og Stundin greindi frá í síðustu viku hefur bein skattbyrði lágtekju- og millitekjufólks aukist á tímabilinu 2012 til 2015 en einungis minnkað hjá tekjuhæstu 20 prósentum landsmanna. Stafar þetta af þróun verðlags og launa en jafnframt af brottfalli auðlegðarskatts og auknu vægi fjármagnstekna sem skattlagðar eru minna en launatekjur.
Bjarni hefur lagt áherslu á að skattbyrðin aukist hjá lágtekju- og millitekjufólki vegna launahækkana sem tekjuhóparnir hafa fengið. Hins vegar hefur hann ekki gert athugasemd við að skattbyrði þeirra tekjuhæstu minnki á sama tíma jafnvel þótt tekjur þess hóps hafi hækkað mest.
Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, benti á það í pistli í gær að hjá um 80 prósentum samskattaðra hefðu álagðir beinir skattar hækkað hlutfallslega meira en tekjur á yfirstandandi kjörtímabili og það leitt til hækkunar á skattbyrði. „Hækkun skattbyrði hjá 80% samskattaðra svarar til þess að þeir greiði 7 milljörðum króna meira í skatt en verið hefði að óbreyttri skattbyrði,“ skrifaði Indriði.
Virðisaukaskattur hækkaður
Um leið og skattbyrði beinna skatta hjá miklum meirihluta skattgreiðenda hefur aukist í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hefur virðisaukaskattur á nauðsynjavöru á borð við mat verið hækkaður.
Þegar virðisaukaskattur á mat hækkaði úr 7 prósentum upp í 11 prósent í ársbyrjun 2015 skilaði hækkunin sér nær umsvifalaust út í verðlagið. Verðlagseftirlit ASÍ komst að þeirri niðurstöðu strax í júní 2015 að matvælaverð hefði hækkað meira en nam skattahækkuninni.
Tekjuaukningin vegna hækkunar neðsta þreps virðisaukaskattsins var meiri en nam tekjutapi ríkissjóðsins vegna lækkunar á efra þrepi skattsins sem leggst til dæmis á heimilistæki og bifreiðar. Í heildina hafa því breytingar ríkisstjórnarinnar á virðisaukaskattkerfinu falið í sér skattahækkun.
Bankaskattur hækkaður
Eins og bent er á í nýlegri greiningu Capacent á íslenskum bankamarkaði hafa sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki hækkað gríðarlega undanfarin ár, en þar vegur þungt sú breyting og hækkun á bankaskattinum sem sitjandi ríkisstjórn lögfesti í upphafi kjörtímabilsins. Þar var skattlagningarvaldinu beitt til að afla ríkissjóði tekna upp á um það bil 90 milljarða á tímabilinu 2014 til 2016, en megintilgangur þess var að geta staðið undir höfuðstólslækkunum hjá skuldsettum heimilum.
Sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki nema nú um 20 prósentum af rekstrarkostnaði bankanna. Í greiningu Capacent er bent á að gjöldin hljóti að valda því að vextir hækki. „Reikna má með að vextir séu að einhverju leyti hærri vegna þessara gjalda. Þetta er sérstaklega áhugavert í ljósi umræðu um vanda ungs fólks að koma sér upp húsnæði. Hár vaxtakostnaður bitnar fyrst og fremst á ungu fólki og barnafjölskyldum eða þeim þjóðfélagshópum sem skulda mest,“ segir þar.
Stjórnarandstöðuflokkarnir vilja hækka tiltekna skatta
Á mynd Ungra sjálfstæðismanna eru Samfylkingin, Píratar og Vinstri græn sögð vilja hækka skatta. Samfylkingin hefur talað sérstaklega fyrir því að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu og veiðigjöld hækki, tekjuskattslækkanir verði afturkallaðar, tekinn verði upp hátekjuskattur og að raforkuskattur og auðlegðarskattur verði endurvakinn.
Píratar hafa meðal annars talað fyrir hækkun fjármagnstekjuskatts, reglum um þunna eiginfjármögnun stórfyrirtækja og umhverfissköttum.
Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur einnig talað fyrir grænum sköttum og því að unnið sé gegn því að stórfyrirtæki komi ósköttuðum hagnaði úr landi, en jafnframt hvatt til hækkunar gistináttagjalds, lækkunar tryggingagjalds, grænum skattahvötum og skattlagningu gjaldmiðlabrasks.
Allir þrír flokkarnir hafa því vissulega talað fyrir tilteknum skattahækkunum. Jafnframt hafa þeir lagst gegn sköttum og skattatillögum ríkisstjórnarinnar, t.d. legugjaldið á spítölum sem ríkisstjórnin vildi leggja á sjúklinga samkvæmt fyrsta fjárlagafrumvarpi sínu haustið 2013 og náttúrupassann sem Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra kynnti til sögunnar árið 2014 og fólst í að fólk yrði látið greiða gjald á hverju ári fyrir að fá að berja náttúruperlur augum.
Athugasemdir