Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru óánægðir með ýmis atriði í fjármálaáætlun Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra og vilja að hún taki breytingum í meðförum þingsins. Um er að ræða stærsta málið sem Benedikt hefur lagt fram frá því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var mynduð en eins og greint var frá í gær er ekki meirihluti fyrir áætluninni á Alþingi nema áform um skattahækkanir á ferðaþjónustu verði endurskoðuð.
Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem báðir tengjast fyrirtækjum í ferðaþjónustu, hafa lýst því yfir að þeir muni ekki samþykkja áætlunina að óbreyttu. Greint var frá þessu í kvöldfréttum RÚV í gær, en nú er einnig orðið ljóst að Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill að fjármálaáætlunin taki breytingum og ýmis atriði verði endurskoðuð.
Þegar ríkisfjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar, núverandi forsætisráðherra, var samþykkt í fyrra voru engar efnislegar breytingar gerðar á henni í meðförum Alþingis. Eygló Harðardóttir, þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, sat hjá þegar greidd voru atkvæði um áætlunina og gaf þá ástæðu að þar væri ekki hlúð nægilega að barnafjölskyldum, öldruðum og öryrkjum. Með þessu uppskar hún gríðarlega hörð viðbrögð frá þungavigtarfólki í Sjálfstæðisflokknum og líkti Bjarni Benediktsson framgöngu hennar við hegðun leikskólabarns.
Athugasemdir