„Þetta var eiginlega bara ótrúlegt þetta árið. Salan jókst mikið í fyrra en núna varð algjör sprenging. Það kláraðist allt á laugardeginum, tveimur dögum fyrir hrekkjavöku, og það var slegist um síðustu graskerin,“ segir Pétur Alan Guðmundsson, kaupmaður í Melabúðinni. Höfðu kaupmenn þar þó undirbúið sig vel, birgt sig rækilega upp og meðal stillt upp graskerjum í stóru keri utan við búðina. „Sumar fjölskyldur voru að kaupa tvö, jafnvel þrjú grasker. Eitt á hvert barn.“
Hann segir það augljóslega hafa ýtt undir hrekkjarvökuáhuga Vesturbæinga að búið var að búið var að bera miða í hús sem fólk var hvatt til að hengja út í glugga, ef það var tilbúið til að „taka á móti nornum, draugum og öðrum óvættum í nammileit.“ Fjöldi fólks brást vel við skilaboðunum og var mikil stemning í hverfinu þetta kvöld, skelfilegar litlar verur á stjái um allar trissur og logandi grasker við þriðja hvert hús.
Bananar, stærsti innflytjandi grænmetis og ávaxta, seldu nær allt það magn sem þeir fluttu inn fyrir hrekkjavökuna í ár. „Þetta hefur stigmagnast hjá okkur ár frá ári. Það er nær ekkert eftir af því sem við fluttum inn í ár, ekki nema eitt lítið kar,“ segir Örvar Karlsson, sölu- og markaðsstjóri Banana. Í ár hafi Bananar selt verslunum og veitingastöðum 50 tonn af graskerjum. Árið 2010 hafi tonnin verið tíu. Salan hafi því fimmfaldast á nokkrum árum.
Athugasemdir