Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur lagt fram frumvarp til breytinga á útlendingalögum um að girt verði fyrir, í tilteknum tilvikum, að kæra útlendings á ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun úr landi geti orðið til þess að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað.
Breytingin mun, samkvæmt frumvarpstextanum, taka til tilvika „sem falla undir d-lið 1. mgr. 32. gr.“ útlendingalaga. Í greinargerð frumvarpsins segir:
Í frumvarpinu er kveðið á um að til 1. janúar 2017 muni kæra í tilteknum málum umsækjenda um alþjóðlega vernd, þar sem Útlendingastofnun hefur ákveðið að viðkomandi skuli yfirgefa landið, ekki fresta réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar. Tekur ákvæðið til þeirra mála þar sem umsækjandi kemur frá ríki á lista yfir örugg upprunaríki, sbr. 3. mgr. 50. gr. d, og Útlendingastofnun metur umsóknina að öðru leyti bersýnilega tilhæfulausa.
Auk þess er fjallað um tilgang frumvarpsins:
Tilgangur ákvæðisins er að létta því mikla álagi sem verið hefur á móttöku- og búsetuúrræðum fyrir hælisleitendur með því að stytta dvalartíma í þeim málum þar sem lægra stjórnsýslustig hefur metið umsóknina bersýnilega tilhæfulausa og umsækjandi kemur frá ríki á lista yfir örugg upprunaríki. Ef fram fer sem horfir stefnir í að um 1000 manns sæki um hæli hér á landi á árinu og má því segja að ákveðið neyðarástand ríki í þessum málum. Gera má ráð fyrir að kostnaður á fjárlagalið hælisleitenda á þessu ári verði um 1,7 milljarðar kr. Af þeim umsóknum sem borist hafa er um helmingur frá ríkjum á lista yfir örugg upprunaríki. Því er ljóst að kostnaður vegna umsókna frá þessum ríkjum er verulegur.
Fram kemur að með frumvarpinu sé „lagt til að umsækjandi fari úr landi svo fljótt sem verða má eftir að niðurstaða liggur fyrir á fyrsta stjórnsýslustigi“. Um leið er fullyrt að með þessu sé „hvorki slegið af kröfum til réttlátrar málsmeðferðar á fyrsta stjórnsýslustigi né rétti umsækjanda til að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar“.
Stundin greindi frá því í byrjun mars að Píratar væru eini flokkurinn á Alþingi sem hefði ekki viljað taka þátt í flutningi frumvarps frá meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar um tilteknar breytingar á útlendingalögum. Þar var meðal annars lagt til að stjórnvöld gætu sent hælisleitendur sem koma frá „öruggum upprunaríkjum“ úr landi um leið og Útlendingastofnun hefði úrskurðað í málum þeirra auk þess sem hælisleitendur yrðu sviptir réttinum til að koma fram fyrir kærunefnd útlendingamála.
Í samtali við Stundina sagðist Helgi Hrafn telja ómálefnalegt af stjórnvöldum að styðjast við lista yfir örugg ríki. „Það er sérstaklega varhugavert að menn ætli nú að gefa þeim lista aukið vægi, þar sem hann getur einungis haft þau einu áhrif að mál eru ekki skoðuð jafn vel og þau ber að skoða,“ sagði hann og bætti við: „Ég tel líka fráleitt að setja í lög að réttaráhrifum verði ekki frestað. Það á alltaf að vera mögulegt að fresta réttaráhrifum ákvörðunar.“
Frumvarpið var samþykkt, með smávægilegum breytingum, af þingmönnum úr öllum flokkum nema Pírötum fimmtudaginn 12. maí. Nú hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í allsherjar- og menntamálanefnd lagt fram annað frumvarp sem gengur lengra í sömu átt.
Athugasemdir