Dómnefnd um hæfni umsækjenda um dómarastöður hefur ekki gætt innra samræmis í álitum sínum. Um þetta voru frummælendur sammála á málþingi Orators, félags laganema við Háskóla Íslands, sem fram fór í háskólanum í dag undir yfirskriftinni „Er Hæstiréttur undanþeginn jafnréttislögum? Jafnrétti kynjanna í Hæstarétti.“ Ræðumenn voru Skúli Magnússon, héraðsdómari og formaður Dómarafélags Íslands, Kristrún Elsa Harðardóttir, formaður Félags kvenna í lögmennsku og Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður og stofnandi lögmannsstofunnar Réttar.
Eins og áður hefur komið fram telur Hæstiréttur Íslands sig óbundinn af 15. gr. jafnréttislaga þegar tilnefnt er í dómnefnd um hæfni umsækjenda um stöðu dómara. Undir þetta mat hafa Lögmannafélag Íslands og dómstólaráð tekið en innanríkisráðuneytið er ósammála því og hefur ítrekað gert athugasemdir við lagatúlkunina. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. jafnréttislaga ber að tilnefna bæði karl og konu þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga. Hæstiréttur telur hins vegar að dómstólalög víki þessu ákvæði jafnréttislaga til hliðar. Hefur sú afstaða verið gagnrýnd harðlega, meðal annars af Félagi kvenna í lögmennsku sem telur að um „hreint og klárt brot á jafnréttislögum“ sé að ræða.
Athugasemdir