Kristján B. Thorlacius, lögmaður lögreglumanns af fíkniefnasviði sem nýlega kvartaði undan einelti Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur lögreglustjóra, segir fráleitt að hún skuli láta í veðri vaka að kvörtunina megi rekja til skipulagsbreytinga hjá embættinu. „Þær gerræðislegu ákvarðanir sem lögreglustjóri tók í máli umbjóðanda míns höfðu nákvæmlega ekkert með skipulagsbreytingar að gera,“ segir hann.
Eins og Stundin greindi frá í síðustu viku hefur lögmaðurinn sent starfsmannaskrifstofu lögreglunnar og innanríkisráðuneytinu bréf þar sem því er lýst hvernig Sigríður Björk hótaði manninum stöðulækkun, svipti hann lögreglufulltrúastöðu og dró til baka ákvörðun um að hann fengi að sækja sérhæfingarnámskeið erlendis. Allt þetta gerðist í vitna viðurvist eftir að lögreglumaðurinn lét í ljós efasemdir um réttmæti ásakana sem bornar höfðu verið á samstarfsmann hans, þann mann sem kallaður hefur verið lögreglufulltrúi x í umfjöllun Stundarinnar og var hreinsaður af ásökunum um brot í starfi og óeðlileg samskipti við aðila úr fíkniefnaheiminum fyrr í sumar.
Eftir að Stundin greindi frá þessu sendi Sigríður Björk frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar um málið. Þar segir hún að ekki séu allar ákvarðanir lögreglustjóra líklegar til vinsælda og síst þær sem feli í sér breytingar á verkefnum eða valdsviði einstaklinga. Þá minnist hún á skipulagsbreytingar og umbreytingarverkefni sem séu í gangi hjá verkefninu. „Ég hef gert margar breytingar frá því að ég tók við sem lögreglustjóri og miða þær allar að því að gera lögregluna aðgengilegri, skipurit flatara, boðleiðir styttri og en fyrst og fremst að bæta þjónustu okkar við borgarana. Einnig hef ég lagt aukna áherslu á ákveðna málaflokka eins og kynferðisbrotamál, mansal og heimilisofbeldismál og þar er starfsfólk embættisins búið að vinna frábært starf í erfiðum verkefnum,“ segir Sigríður Björk í yfirlýsingu sinni og bætir við: „Líkt og títt er um slíkar breytingar geta þær verið umdeildar, hitt í mark hjá sumum en valdið óánægju annarra. Ég hef hlustað á ábendingar lögreglumanna en mikið af óánægjunni hefur borist frá nafnlausum aðilum í gegnum fjölmiðla.“
Stundin bauð lögmanni og talsmanni lögreglumannsins sem kvartaði undan einelti lögreglustjóra að bregðast við yfirlýsingunni. Hann sendi blaðamanni eftirfarandi tölvupóst:
Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins sendi fjölmiðlum fyrir helgi yfirlýsingu sem virðast vera viðbrögð við umfjöllun fjölmiðla um kvörtun umbjóðanda míns um einelti af hennar hálfu. Þar lætur lögreglustjóri í veðri vaka að kvörtun umbjóðanda míns megi rekja til skipulagsbreytinga hjá embættinu. Rétt er að halda því til haga að þær gerræðislegu ákvarðanir sem lögreglustjóri tók í máli umbjóðanda míns höfðu nákvæmlega ekkert með skipulagsbreytingar að gera. Þær má alfarið og eingöngu rekja til þess að umbjóðandi minn vildi ekki draga til baka afstöðu sína til tiltekinna starfsmanna embættisins, sem farið höfðu fram gegn lögreglufulltrúa við embættið með rangfærslum og ósannindum. Það liggur fyrir, staðfest í tölvupósti hennar sjálfrar, að lögreglustjóri bauð umbjóðanda mínum ítrekað að skipta um skoðun í málinu og hverfa frá sannfæringu sinni. Ef hann gerði það þá myndi málið ekki hafa nein áhrif á stöðu hans við embættið.
Vegna ummæla lögreglustjóra um nafnlausar ábendingar lögreglumanna í fjölmiðlum, þá er rétt að benda á að umbjóðandi minn hefur lagt sínar kvartanir um framgang lögreglustjóra í málinu fram undir fullu nafni og á það bæði við um þær kvartanir sem hann hefur nú gert með formlegum hætti til LRH og innanríkisráðuneytisins, sem og þá fundi sem hann hefur áður átt með lögreglustjóra og fulltrúum innanríkisráðuneytisins vegna málsins.
Tölvupósturinn sem lögmaðurinn vísar til hér að ofan verður birtur á vef Stundarinnar um helgina. Ítarlega er fjallað um málið í blaðinu sem kemur út á morgun.
Athugasemdir