Í landi stirðbusa og hliðar-saman-hliðar brenna sennilega fáir fyrir salsa á sama hátt og þau Ásthildur Valtýsdóttir og Juan Camilo Román Estrada gera. Þau dansa salsa því sem næst á hverjum degi. Stundum taka þau stuttan snúning eftir morgunmatinn, áður en þau halda út í daginn. Þau dansa á meðan þau elda, til að hvetja sig áfram í heimilisstörfunum og halda sín einka-salsa-partí um helgar sem engum er boðið til nema þeim tveimur. „Mér finnst að hjónaband eigi að vera þannig að maður gifti sig á hverjum degi. Sérstaklega þegar fólk er búið að vera lengi saman, eins og við. Maður þarf að skapa aðstæðurnar til að kveikja aftur þessar sterku ástartilfinningar sem maður finnur í upphafi sambands. Allir geta fundið eitthvað sjarmerandi í hversdeginum. Hjá okkur er það dansinn,“ segir Juan.
Þau kynntust fyrir tíu árum í Medellin, höfuðborg Kólumbíu. Þar bjuggu þau saman í eitt og hálft ár, þar giftu þau sig og áttu margar eftirminnilegar stundir. Oftar en ekki kom salsa við sögu, enda órjúfanlegur hluti af menningu svæðisins. Þau fluttu til Íslands einu og hálfu ári eftir að þau giftu sig. Hér tengja fáir við ást þeirra á salsa. „Salsa er okkar einkatungumál á einhvern hátt og það eru okkar forréttindi að skilja það bæði,“ segir Juan. „Það að eiga salsa saman er eitt af því sem færir okkur nær hvort öðru og gerir einkalíf okkar skemmtilegt. Gefur okkur krydd í lífið.“
Athugasemdir