Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hefur ákveðið að sækjast eftir endurkjöri og tilkynnti um það á blaðamannafundi í þinghúsinu í dag.
Áður hafa boðið sig fram þau Guðmundur Ari Sigurjónsson, Helgi Hjörvar, Magnús Orri Schram og Oddný G. Harðardóttir. Oddný nýtur mests stuðnings samkvæmt skoðanakönnun sem nýverið var gerð og hefur Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður, lýst yfir stuðningi við hana.
„Ný ríkisstjórn mun taka við stjórnartaumunum í haust. Ég vil leiða og þjóna Samfylkingunni í því ferli,“ segir í kynningarplaggi sem Árni Páll afhenti eftir að hann hafði svarað spurningum fréttamanna og tilkynnt um ákvörðun sína í dag. Sem kunnugt er hefur fylgi Samfylkingarinnar verið í algjöru lágmarki um langa hríð.
Þegar Árni Páll vann sigur í formannskjöri árið 2013 var hann málsvari samvinnustjórnmála og talaði mjög gegn skotgrafahernaði og átakastjórnmálum gamalla tíma. Sams konar áherslna gætir í málflutningi hans nú, bæði á blaðamannafundinum í dag og í framboðspistlinum sem hann afhenti. Árni telur að Samfylkingin hafi slæma reynslu af átakastjórnmálum. Flokkurinn hafi gert mistök en jafnframt lært af þeim. Því sé flokkurinn traustsins verður. Þá segist hann hafa spurt sig spurninga um sjálfan sig og stjórnmálaferil sinn; sumt hafi verið mistök en af öðru geti hann verið stoltur.
Athugasemdir