AdaM Hótel á Skólavörðustíg beinir því til hótelgesta að drekka ekki kranavatn. Þess í stað er boðið upp á að kaupa vatn á flöskum, merkt hótelinu, á 400 krónur.
Neysluvatn í Reykjavík er almennt drykkjarhæft. Samkvæmt yfirlýsingu frá Veitum ohf, sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, voru öll sýni sem tekin voru úr drykkjavatni árið 2015 „pottþétt“. „Þess vegna er engin ástæða til að vara við kranavatninu nema eitthvað sé bilað innanhúss. Hvað ætli sé bilað?“ er spurt í færslu á Facebook-síðu Veita.
„Hann er í útlöndum“
Þegar hringt er í hótelið svarar maður, sem hvorki er hótelstjórinn né starfsmaður.
„Nei, þetta er ekki hótelstjórinn,“ segir hann.
Spurður hvort starfsfólk ráðleggi hótelgestum að drekka ekki kranavatnið segir maðurinn: „Heyrðu, ég er no comment með þetta, reyndu að tala við hótelstjórann, hann getur svarað.“
Ekki er hins vegar hægt að ná í viðkomandi í síma. „Hann er ekki með símanúmer, af því hann er í útlöndum,“ segir maðurinn.
Maðurinn sem svarar í símanúmer hótelsins er ekki starfsmaður hótelsins.
Vinur hótelstjórans svarar
En þið ráðleggið hótelgestum að drekka ekki vatnið?
„Nei, ég kann ekki að svara þessu. Ég segi það. Hann getur svarað því.“
Og ert þú starfsmaður á hótelinu?
„Nei. Nei. Ég bara svara í símann fyrir starfsmann, af því hún talar bara ensku, og það eru margir fréttamenn sem eru að hringja. Þetta er alveg non stop. Þetta er smá pirrandi fyrir starfsmenn, því enginn getur svarað þessu.“
Athugasemdir