Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, tekur þátt í kynningu á tækninni Boditrax sem fjallað er um á vef Smartlands. Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar og eiginkona Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra, kynnir tæknina og Kristján Þór prófar hana í umfjölluninni sem er auglýsingu líkust. Um er að ræða tækni sem Hreyfingin tók nýlega í notkun.
Greinin hefst með stuttri kynningu Ágústu á Boditrax-tækninni. „Boditrax er háþróuð tækni sem mælir samsetningu líkamans og er notað af mörgum virtum heilsustofnunum víða um heim. Með 30 sekúndna prófi færðu niðurstöður um marga mismunandi þætti sem gefa mikilvægar upplýsingar um vöðvamassa, fitu, vatnsmagn, grunnbrennslu og innri fitu. Tækið notar svo tölfræði til að meta ástand þitt miðað við hæð, þyngd, aldur og gefur þér upp líffræðilegan aldur,“ er haft eftir henni.
Í annarri grein á vef Smartlands er tekið viðtal við Brynjar Níelsson, formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sem einnig prófaði Boditrax-tæknina og lýsir því hvernig hann ætlar að taka sig á, hreyfa sig og borða hollari á mat.
Á meðal þeirra sem vekja athygli á umfjölluninni á Facebook er Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra og eiginmaður Ágústu Johnson.
Stundin sendi Mörtu Maríu Jónasdóttur, ritstjóra Smartlands, tölvupóst og spurði hvort greinarnar væru kostað kynningarefni. „Þetta er hefðbundið lífsstílsefni, ekki kostað,“ svaraði hún.
Í Bandaríkjunum hafa Donald Trump og ráðgjafi hans, Kellyanne Conway, sætt harðri gagnrýni fyrir að notfæra sér fjölmiðlaathyglina sem þau fá vegna stöðu sinnar til að kynna vörur Ivönku Trump, dóttur Bandaríkjaforseta.
Athugasemdir