Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur skipað Brynhildi S. Björnsdóttur, fyrrverandi stjórnarformann og varaþingkonu Bjartrar framtíðar, sem stjórnarformann Sjúkratrygginga Íslands. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.
Brynhildur sótti nám í Harvard Business School árið 2016, lauk MSc. gráðu frá Háskóla Íslands í stjórnun og stefnumótun árið 2009 og BA frá Háskólanum á Bifröst í hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði árið 2007.
Hún var stjórnarformaður Bjartrar framtíðar 2015-2016 og átti sæti á Alþingi sem varaþingmaður fyrir Bjarta framtíð á síðasta kjörtímabili. Eftir að ríkisstjórn Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins tók við hefur Brynhildur haldið uppi vörnum og hvatningu fyrir ráðherra Bjartrar framtíðar á Facebook-síðu sinni.
Þegar greint var frá því í febrúar að Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra hefði gefið Alþingi rangar upplýsingar um ráðstafanir ríkisstjórnarinnar til að fylgja stjórnarsáttmála sínum eftir skrifaði Brynhildur: „Þetta er mesta 'much ado about nothing' sem ég hef séð lengi. Póteitó-pótató. Hver skilur eða pælir í þessum fáránlega háfleygu orðum á þingi? And who really cares?“ Þá hefur hún ítrekað hrósað Óttari Proppé fyrir störf hans sem heilbrigðisráðherra og furðað sig á gagnrýni sem hann hefur sætt.
Hlutverk stjórnar Sjúkratrygginga Íslands er að staðfesta skipulag stofnunarinnar, árlega starfsáætlun og fjárhagsáætlun og marka henni langtímastefnu. Stjórnin hefur jafnframt eftirlit með starfseminni og að rekstur stofnunarinnar sé innan ramma fjárlaga á hverjum tíma.
Á meðal fyrri stjórnarformanna Sjúkratrygginga eru Björn Zoëga, læknir og fyrrverandi forstjóri Landspítalans, Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðingur og núverandi fjármálaráðherra og Dagný Brynjólfsdóttir, fyrrverandi deildarstjóri í heilbrigðisráðuneytinu.
Athugasemdir