Almar Miðvík Halldórsson, verkefnisstjóri hjá Námsmatsstofnun, er einn eigandi félagsins Vísar rannsóknir ehf. sem rekur meðal annars Skólapúlsinn.
Samkvæmt heimasíðu félagsins er það „rannsóknarfyrirtæki sem býður upp á sérhæfða söfnun, greiningu og miðlun gagna.“ Persónuvernd gerði athugasemdir við upplýsingasöfnun félagsins árið 2010. Óskýr mörk eru milli fyrirtækjarekstur Almars og starfs hans hjá ríkinu. Almar segir í samtali við Stundina að hann telur fyrirtækjarekstur sinn ekki ósamræmanlegan við starf sitt hjá ríkinu.
Þriðjungs eigandi
Almar á þriðjungshlut í félaginu og var skráður framkvæmdastjóri í nýjasta ársreikningi félagsins sem er fyrir árið 2013. Á heimasíðu Vísar má sjá starfsmenn félagsins og var Almar þar til nýverið á þeim lista. Almar var fjarlægður af þeim lista eftir bloggfærslu Ragnars Þórs Péturssonar um málið síðastliðinn miðvikudag. Almar er enn fremur ábyrgðaraðili félagsins hjá Ríkisskattstjóra. Auk þessa er Almar starfsmaður Námsmatsstofnun og er hann sagður á heimasíðu bera ábyrgð á alþjóðlegum rannsóknum. Almar er þó iðulega kynntur sem verkefnisstjóri PISA hjá stofnuninni. Námsmatsstofnun er stofnun sem heyrir stjórnarfarslega undir menntamálaráðherra.
Almar segir að hann hafi hætt störfum hjá fyrirtæki sínu um áramótin, hann sé ekki lengur á launaskrá. Hann segir að hann hafi verið fjarlægður af vefsíðunni að beiðni forstöðumanns Námsmatsstofnunar.
Athugasemdir