„No, no, no, no, no, that is not going to be the case,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, þegar fréttakonan Christiane Amanpour á CNN spurði hann hvort eitthvað ætti eftir að koma í ljós um hann eða fjölskyldu hans í umræðunni um skattaskjól.
Í dag greina hins vegar Kjarninn og Reykjavik Grapevine frá því að fjölskylduauður Dorritar Moussaieff, eiginkonu Ólafs, hafi verið geymdur á Bresku Jómfrúareyjunum.
Félagið sem um ræðir heitir Lasca Finance Limited og er eitt þeirra sem koma fyrir í gögnum panamísku lögmannsstofunnar Mossack Fonseca. Það var skráð á Bresku Jómfrúareyjunum árið 1999 en árið 2005 seldi fjölskyldufyrirtækið Moussaieff Jewellers Ltd. 10 prósenta hlut sinn í Lasca Finance til hinna tveggja eigenda þess, þeirra S. Moussaieff og Mrs. Moussaieff.
„Átt þú einhverja aflandsreikninga? Á eiginkona þín einhverja aflandsreikninga? Á eitthvað eftir að koma í ljós er tengist þér og fjölskyldu þinni?” spurði fréttakonan í viðtalinu við Ólaf sem harðneitaði. Forsetaembættið hefur gefið þau svör að hvorki Ólafur Ragnar né Dorrit hafi vitað af aflandsfélaginu. Eins og frægt er orðið flutti Dorrit Moussaieff lögheimili sitt til Bretlands árið 2012.
Athugasemdir