Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, vill að Alþingi álykti um að fjármálaráðuneytið og stofnanir sem undir það heyra semji alltaf á þann veg í kjarasamningum að lægstu föstu launagreiðslur verði aldrei lægri en þriðjungur af hæstu föstu launagreiðslum. Þetta kemur fram í þingsályktunartillögu frá honum sem birtist á vef Alþingis rétt í þessu.
Í greinargerð segir hann mikilvægt að styðja ekki einungis við kröfuna um hækkun lægstu launa heldur einnig að tryggja að lægstu laun fylgi að lágmarki þróun hæstu launa. „Ákjósanlegast væri að launabilið yrði talsvert minna en nemur þreföldum mun en með þeirri launastefnu sem í tillögu þessari felst yrði engu að síður dregið verulega úr kjaramisréttinu. Málið yrði þannig mikilvægur áfangi í átt til kjarajöfnunar,“ skrifar Ögmundur.
„Í stað þess að beðið sé eftir því að gengið hafi verið frá samningum láglaunamannsins svo smyrja megi á kjör hátekjufólksins þá verður byggð inn í kerfið eins konar varnarvísitala fyrir lægstu launin nái tillagan fram að ganga. Annar kostur og betri í kjarasamningum væri að ákveða fyrst kjör hinna hæstu og ganga að því búnu frá almennum kjarasamningum, ella kæmi til kasta sjálfvirkrar vísitölu sem kalla mætti varnarvísitölu lágtekjufólks.“
Ögmundur telur ranglátt launabil hjá hinu opinbera „smávægilegt miðað við almenna markaðinn þar sem sjálftökumenn skammta sér í mánaðartekjur jafnvel margföld árslaun verkafólks“. Í einkageiranum verði þetta hins vegar varla lagað með löggjöf. „En fordæmi almannaþjónustunnar gæti orðið siðferðilegur vegvísir.“
Loks skrifar hann: „Þá má ætla að samningamenn reyndu að koma ákvæðum um varnarvísitölu lágtekjufólks inn í kjarasamninga á almenna markaðnum. Viðmiðið gæti verið meðaltalslaun stjórnar Samtaka atvinnulífsins. Án öryggistappa af þessu tagi yrði víðtækt handjárnað samflot á launamarkaði alltaf á forsendum hátekjufólksins, enda mikill ákafi þar á bæ að koma slíku fyrirkomulagi á. Síðan kæmu hátekjuskattar til sögunnar til að draga úr grófasta misréttinu sem út af stæði.“
Athugasemdir