Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, telur að kjósendur í Reykjavík viti ekki hvaða flokkar séu í borgarstjórnarmeirihlutanum. Þetta er skýring Halldórs á niðurstöðum skoðunarkönnunar, sem sýnir að borgarstjórnarmeirihlutinn héldi velli, ef kosið væri nú, og Sjálfstæðisflokkur næði ekki að auka fylgi sitt.
Í könnuninni, sem gerð var af Gallup fyrir Viðskiptablaðið, kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn fengi 26,8 prósent fylgi ef kosið væri nú, en hann fékk 25,7 prósent í sveitarstjórnarkosningunum 2014.
Í viðtali við Halldór í Viðskiptablaðinu segir Halldór að hann „telji fólk ekki gera sér neina grein fyrir því hvaða flokkar eru í meirihlutanum í Reykjavík“: „Það er kannski einhver sem hugsar að hann sé brjálaður út í Dag, borgarstjóra, og „Holu-Hjálmar,“ sami einstaklingur segir að götur í Reykjavík séu fullar af holum. Í kjölfarið telur fólk að þeir verði ekki kosnir. Svo er hringt frá fyrirtæki sem er að gera skoðanakönnun og þá segist fólk ætla að kjósa VG eða Pírata. En það eru einmitt þeir flokkar sem mynda þennan meirihluta.“
Þá segir Halldór að fólk virðist taka afstöðu líkt og um könnun á landsvísu væri að ræða, þar sem vinstri grænir hljóti 20 prósent fylgi sem sé svipað og í nýjustu könnun á landsvísu. „Ég held að það séu Katrínar Jakobs-áhrifin. Með fullri virðingu fyrir Líf Magneudóttur, sem er alveg ágæt.“
Samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar fengi borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata samtals 61,4 prósent, en fengu 61,7 prósent í kosningunum 2014.
Athugasemdir