Eftir að stjórnarmyndunarviðræðum fimm flokkanna var slitið rétt í þessu er ljóst að einhver flokkanna þarf að breyta um afstöðu til annarra flokka til þess að ný ríkisstjórn geti orðið að veruleika.
Engin ríkisstjórn verður mynduð án Sjálfstæðisflokksins nema Píratar endurskoði ákvörðun sem þeir kynntu fyrir kosningar um að starfa ekki með Framsóknarflokknum.
Vinstri grænir hafa útilokað samstarf með Sjálfstæðisflokknum, Píratar hafa útilokað Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk og Viðreisn útilokað Sjálfstæðisflokk með Framsóknarflokki.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur ekki skilað stjórnarmyndunarumboðinu, en hún þarf nú að velja á milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, ef hún ætlar að mynda ríkisstjórn.
Viðræður Vinstri grænna, Viðreisnar, Pírata, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar slitnuðu eftir að Viðreisn og VG náðu ekki saman um skattamál. Vinstri grænir vilja hækka skatta, en Viðreisn vill lækka skatta og/eða einfalda skattkerfið. Samkvæmt heimildum Stundarinnar gengu stór mál vel í viðræðunum, en Viðreisn gaf ekki eftir í skattamálum og vildi hvorki hækka skatta né koma á nýjum sköttum. Vinstri grænir vildu hins vegar hátekjuskatt og stóreignaskatt.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hafði gefið til kynna daginn eftir kosningar að hann vildi ekki „Píratabandalag“ eða fimm flokka stjórn með Pírötum, VG, Bjartri framtíð og Samfylkingunni.
Ef Katrín hyggst halda áfram stjórnarmyndun þarf hún annað hvort að taka Framsóknarflokkinn inn í staðinn fyrir Viðreisn, eða semja við Sjálfstæðisflokkinn og þriðja flokk. Vinstri grænir hafa hins vegar útilokað samstarf með Sjálstæðisflokknum og Píratar hafa útilokað samstarf með Framsóknarflokkinn, þannig að báðir möguleikar eru lokaðir án endurskoðunar afstöðu flokkanna til hvers annars.
Sjálfstæðismenn hafa lýst yfir áhuga á að vinna með Vinstri grænum en óljóst er hver þriðji flokkurinn væri, þar sem Viðreisn og VG náðu ekki saman, Píratar og Sjálfstæðisflokkur vilja ekki vinna saman, og þar sem ólíklegt er að Vinstri grænir komi inn til að viðhalda Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki. Hins vegar gætu Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir myndað ríkisstjórn með Bjartri framtíð með 35 þingmenn.
Athugasemdir