Það að sniðganga ísraelskar vörur er ein af fáum leiðum sem færar eru til að þrýsta á ísraelsk stjórnvöld að láta af hernáminu í Palestínu. Þetta segir Bryndís Silja Pálmadóttir, háskólanemi sem bjó í Palestínu um skeið, í opnu bréfi til borgarfulltrúa Reykjavíkurborgar.
„Þrátt fyrir að standi til að draga tillöguna til baka þá hvet ég ykkur til þess að vinna næstu skref vel. Tilraun ykkar til aðgerða hefur vakið athygli heimsins og ísraelsk stjórnvöld fylgjast með,“ stendur í bréfinu sem Bryndís sendi í gær, nokkru áður en aukafundur borgarstjórnar í Ráðhúsinu hófst. Á fundinum samþykkti borgarstjórn einróma að fyrri samþykkt borgarinnar, um að ísraelskar vörur skyldu sniðgengnar meðan á hernámi Palestínu stæði, yrði felld úr gildi.
Í samtali við Stundina segir Bryndís að hún hafi, auk þess að senda bréfið, sent borgarfulltrúm eitt af myndböndunum sem hún tók upp í Palestínu meðan hún bjó þar. Jafnframt hafi hún bent þeim á yfirlýsingu sem Boycott from Within, samtök ísraelskra ríkisborgara sem berjast fyrir sniðgöngu á ísraelskum vörum, birtu í dag. Þar er skorað á borgarfulltrúa Reykjavíkur að halda sniðgöngunni til streitu. Fram kemur að hópurinn skilji að borgarstjórn sé undir miklum þrýstingi um að draga ákvörðunina til baka. „Við hvetjum ykkur hins vegar til þess að gera það ekki, því það mætti túlka sem stuðning við brot Ísraelsríkis,“ segir í tilkynningu samtakanna.
Athugasemdir