Mál Emils K. Thorarensen, íbúa á Eskifirði sem Héraðsdómur Austurlands dæmdi fyrir meiðyrði gegn lögreglumanni á Facebook í sumar, verður tekið fyrir í Hæstarétti.
Ákæruvaldið höfðaði meiðyrðamálið gegn Emil vegna aðdróttana í garð opinbers starfsmanns árið 2013. Þann 16. júlí síðastliðinn var hann sakfelldur fyrir ummæli um lögreglumanninn Þór Þórðarson sem hljóðuðu svo:
„Hefur að sögn, sent táningum og unglingsstelpum kynferðisleg skilaboð og jafnframt boðið þeim upp á „afslátt“ gegn ???“ Ekki voru færðar sönnur á ummælin fyrir rétti svo Emil var gert að greiða 30 þúsund króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna ellegar sæta fangelsi í fjóra daga. Auk þess var hann dæmdur til að greiða Þór 150 þúsund krónur í miskabætur og 504 þúsund krónur í sakarkostnað.
Áfrýjunarleyfi veitt
Emil kærði lögreglumanninn til ríkissaksóknara þann 18. janúar á þessu ári vegna meints eineltis og misbeitingar valds. Saksóknari tilkynnti Emil að ekki yrði tekin afstaða til kærunnar fyrr en niðurstaða Héraðsdóms Austurlands lægi fyrir, enda yrði þar fjallað um atvik skyld þeim sem kæra Emils snýst um. Emil sendi ríkissaksóknara fyrirspurn um málið þann 16. júní síðastliðinn og spurði meðal annars: „Er eðlilegt að ríkissaksóknari sé með ákæru á hendur mér en rannsaki jafnframt mína beiðni um rannsókn á Þórði Þórðarsyni?“
Eftir að dómur Héraðsdóms Austurlands var kveðinn upp þann 16. júlí sótti Gísli M. Auðbergsson, lögmaður Emils, um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Í bréfi ríkissaksóknara til Hæstaréttar var tekið undir röksemdir héraðsdóms fyrir sakfellingu Emils og því sjónarmiði lýst að ákærði hefði ekki sýnt fram á að skilyrði fyrir veitingu áfrýjunarleyfis væru uppfyllt. „Að öllu virtu er það mat ríkissaksóknara að ekki séu efni til að verða við beiðni ákærða um leyfi til áfrýjunar,“ segir í bréfinu. Hæstiréttur Íslands komst hins vegar að gagnstæðri niðurstöðu og í lok september var Emil tilkynnt að hann fengi leyfi til að áfrýja dóminum.
Athugasemdir