Malín Brand sendi rétt í þessu frá sér yfirlýsingu um meinta fjárkúgun á hendur Helga Jean Claessen, sem lagði í gær fram kæru á hendur Malín og systur hennar Hlín Einarsdóttur, fyrir að kúga út úr sér fé með ásökunum um nauðgun.
„Að kvöldi laugardagsins 4. apríl síðastliðinn hringdi Hlín systir mín í mig í miklu uppnámi og sagði mér að sér hafi verið nauðgað af fyrrverandi samstarfsfélaga sínum.“
Hlín hafi velt því fyrir sér að kæra manninn vegna framgöngu hans. „Hann reyndi að ná sambandi við hana daginn eftir en hún vildi ekki tala við hann. Í kjölfarið áttum við samskipti þar sem ég lýsti reiði minni en hann lagði áherslu, samkvæmt mínum skilningi, á að fá hana til að kæra ekki.“
Á þriðjudeginum hafi Hlín beðið hana um að keyra sig á bráðamótttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis þar sem hún fékk aðhlynningu og skoðun.
„Ástand hennar að mati starfsfólks þar benti til að hún hefði orðið fyrir nauðgun. Maðurinn lagði áherslu á að mannorðs síns vegna myndi nauðgunarkæra, hvort sem hún leiddi til ákæru og sakfellingar eða ekki, valda sér miklum hnekki. Systir mín féllst á þessi sjónarmið og úr varð sátt með greiðslu miskabóta. Upphæð bótanna var hennar tillaga.
Samskiptin fóru í gegnum mig því systir mín treysti sér ekki til að eiga þau. Eins og fram hefur komið veitti ég sáttafénu viðtöku fyrir hönd systur minnar og kom því áfram til hennar. Sáttin var handskrifuð í tveimur eintökum sem aðilar undirrituðu, annars vegar viðkomandi og hins vegar ég fyrir hönd systur minnar, þar sem hver hélt eftir sínu eintaki. Upphæðin kom þar meðal annars fram en ekki var um kvittun að ræða.“
Malín leggur að lokum áherslu á að hún vilji ekki stuðla að því að flekka mannorð nokkurs manns. „Ekki má sakfella neinn fyrr en mál hafa verið að fullu rannsökuð. Meint brot mannsins er alvarlegt, rétt eins og aðkoma mín að broti systur minnar gagnvart forsætisráðherra og fjölskyldu hans. Mér þykir óskaplega leitt að hafa valdið þessu fólki skaða.“
Athugasemdir