Byltingunni sem hófst á föstudag þar sem konur í Facebook hópnum Beauty tips mótmæla þöggun með því að segja frá reynslu sinni af kynferðisofbeldi er hvergi nærri lokið. Enn streyma sögurnar inn. Ein þeirra segir frá því hvernig kona, sem var nauðgað þegar hún var fjórtán ára, tók völdin í sínar hendur þegar hún hitti nauðgara sinn í bænum.
Konan vildi ekki láta nafns síns getið en hún leyfði Stundinni að endurbirta færsluna. Hún segir:
„Ég hitti minn böðul á netinu. Hann var um 22ja ára minnir mig og heitir Birgir. Ég var kannski 14 ára.
Ég hafði smakkað áfengi í frekar miklu magni um nóttina í heimahúsi og ég hafði sagt honum að ég væri að stelast.
Einhverstaðar í minningunni er Wrangler jeppi, Captain morgan flaska og Winston pakki.
„Seinna man ég eftir tvílitum gluggatjöldum og gífurlegum sársauka og blóði.“
Seinna man ég eftir tvílitum gluggatjöldum og gífurlegum sársauka og blóði. Hann leiddi mig út daginn eftir og bað mig um að segja mömmu sinni að ég væri 18 ára, ef ég skyldi mæta henni. Minnti mig á að ég hefði viljað þetta. Aftur og aftur. Á meðan ég staulaðist um líkt og einhver hefði sargað í móðurlífið á mér. Einmitt.
Ég mætti honum í Smáralindinni nokkrum árum seinna þar sem hann rúllaði barni í vagni með konuna sína upp á handleggnum. Ég sá að honum krossbrá við að sjá mig.
Ég fann sigur í því, gekk upp að þeim og heilsaði honum eins og gömlum vin. Snéri mér svo að konunni hans og kynnti mig;
„Sæl. Ég er stelpan sem Birgir nauðgaði fyrir nokkrum árum.“
Svo kvaddi ég, og fór.
„Ég er sem betur fer löngu búin að sigra þennan draug og finna gleðina.“
Öllum þessum meðferðum seinna þá vann ég og skilaði þessari helvítans skömm beint í kokið á honum.
Lokahöggið er kannski þessi póstur, en enn í dag veit fjölskyldan mín ekki af þessu. Ég gat ekki hugsað mér að leggja þessa sorg á þau. Ég er sem betur fer löngu búin að sigra þennan draug og finna gleðina. Sættast við fortíðina og landa hamingjunni.
Þögnin maður. Hún er svo mikið ógeð. Áfram við."
Sjá einnig: Bylting á Beauty tips: „Mér var nauðgað af barnsföður mínum með hníf við hálsinn“
„Það var ég sem fór í stuttum kjól niður í bæ“
Byltingin hefur einnig færst yfir á aðra samfélagsmiðla og á Twitter er að finna fjölmargar færslur undir #konur tala #þöggun.
Athugasemdir