„Ég er löngu búin að missa töluna á hjálparframlögum fólks og hef ekki við að „like-a“ bréfin þeirra. Það á eftir að taka langan tíma að safna þessu saman, en Eygló fær bréfin útprentuð,“ segir Bryndís Björgvinsdóttir, rithöfundur, í samtali við Stundina en hún stofnaði í dag Facebook-viðburðinn „Kæra Eygló Harðar – Sýrland kallar“. Tilefnið er áskorun Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, til almennings um að leggja sitt af mörkum við að aðstoða flóttafólk. „Ég hvet fólk til að hafa samband við velferðarráðuneytið og Rauða krossinn og spyrja hvað það geti gert til þess að hjálpa. Fólk þarf að fá vinnu, húsnæði, föt og til dæmis aðstoð við að læra á hvernig bankakerfið virkar,“ sagði Eygló meðal annars í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa og þegar þetta er skrifað hafa hátt í þrjú þúsund manns skráð sig á viðburðinn. Hugmyndin er að sýna stjórnvöldum að vilji sé til, á meðal almennings, að taka á móti fleiri flóttamönnum frá Sýrlandi en nú þegar hefur verið rætt um.
„Fólk er komið með nóg af hægum viðbrögðum við neyð flóttamannanna og vill sjá meiri viðbragðsflýti og minna af hiki og vangaveltum og skriffinnsku. Flóttamenn eru fyrst og fremst að leita sér að skjóli og nauðsynjavörum á borð við vatn og mat og við getum boðið upp á allt þetta,“ segir Bryndís en hún segist hafa stofnað viðburðinn þegar Þorvaldur Sverrisson, Facebook-vinur hennar, bað Eygló Harðardóttur að veita fimm Sýrlendingum dvalar- og atvinnuleyfi, ásamt kennitölu og helstu mannréttindum, svo hann gæti hýst þá og gefið að borða. „Ég hugsaði þá með mér, að ég gæti borgað undir þá farið til Íslands – og þannig mætti hækka töluna sem nefnd hefur verið (50) upp í 55. Þá datt mér í hug að eflaust væri hægt að hækka hana enn frekar,“ segir Bryndís.
„Flóttamenn eru fyrst og fremst að leita sér að skjóli og nauðsynjavörum á borð við vatn og mat og við getum boðið upp á allt þetta.“
Bjóða húsnæði, föt og stuðning
Fjölmargir hafa skrifað til Eyglóar í dag og boðið fram föt, húsgögn, kennslu og félagslegan stuðning handa flóttafólki. Einhverjir hafa einnig boðið peninga fyrir flugfari og jafnvel húsaskjól og fæði. Auður Jónsdóttir, rithöfundur, segist geta skrifað barnabók og látið andvirði sölunnar renna til barna sem fá skjól á Íslandi og Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur Hjallastefnunnar, segist geta boðið leik- og grunnskólaúrræði, ásamt stuðningi við barnafjölskyldur. Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Iceland
Athugasemdir