Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú alvarlega líkamsárás sem átti sér stað á miðvikudaginn þegar þrír piltar á aldrinum sautján til átján ára lokkuðu jafnaldra sinn upp í bifreið og gengu síðan í skrokk á honum.
Hrottafengin árás
Eftir barsmíðarnar var fórnarlambið skilið eftir í blóði sínu og keyrðu jafnaldrar hans í burtu. Pilturinn sem ráðist var á var tvíkjálkabrotinn, með opið beinbrot, brotna tönn og stóran skurð í vör en hann gekkst undir aðgerð í gær vegna áverka sinna.
Eins og áður segir rannsakar lögreglan nú árásina sem var sérlega hrottafengin en samkvæmt heimildum Stundarinnar var pilturinn lokkaður upp í bifreið þar sem síðan var keyrt með hann að slippnum í Njarðvík. Þar var hann dreginn út úr bifreiðinni og síðan misþyrmt hrottalega með fyrrgreindum afleiðingum.
Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum hefur ekki tjáð sig um árásina en blaðamaður óskaði eftir upplýsingum um málið í dag.
Athugasemdir