Líflegar umræður hafa spunnist á Facebook-síðu lögreglunnar, þar sem Þórdís Elva Þorvaldsdóttir kallar eftir skýringum á því hvers vegna menn sem liggja undir grun um að hafa nauðgað tveimur konum sitji ekki í gæsluvarðhaldi.
Þórdís Elva segir að meintir nauðgarar hafi sýnt af sér einbeittan brotavilja og samverknað og því hljóti að vera ríkir almannahagsmunir fyrir því að þeir gangi ekki lausir. „Ef almenningi stafar ekki hætta af þessum mönnum, hver er þá nógu hættulegur til að sitja í gæsluvarðhaldi? Telst það ekki til almannahagsmuna að konur séu öruggar í Reykjavík?“ spyr Þórdís.
Lögreglan svarar innlegginu með þeim orðum að hún geti ekki rætt tiltekin mál á opinberum vettvangi og þar af leiðandi ekki útskýrt hvaða ástæður liggja að baki þessari ákvörðun. Frá því að kynferðisbrotadeildin var stofnuð árið 2007 sé hins vegar almennt lagt kapp á að nýta allar rannsóknarheimildir sem lögreglu standi til boða, svo sem húsleitir, tæknirannsóknir og gæsluvarðhald: „Í öllum málum þarf að skoða atvik til þess að meta hvort að málið uppfylli skilyrði þessarra aðgerða. Þannig þarf þetta mat alltaf að fara fram og í öllum tilvikum gerum við okkar allra besta til að ákvarða rétt.“
Um leið og Þórdís þakkar fyrir svarið bendir hún á að samkvæmt íslenskum lögum sem varða gæsluvarðhald þurfi að leika grunur á að sakborningur hafi framið afbrot sem varðar tíu ára fangelsi. „Einnig ef talið er nauðsynlegt að verja aðra fyrir árásum sakbornings, eða ef ætla má að hann reyni að afmá merki eftir brot eða hafa áhrif á samseka og síðast en ekki síst með tilliti til almannahagsmuna. Þetta tiltekna mál virðist skólabókardæmi og uppfylla flest - ef ekki öll - þau skilyrði þar sem krefjast má gæsluvarðhalds yfir sakborningi. Því spyr ég: Ef lögreglan má ekki útskýra fyrir mér hvers vegna þessir menn eru ekki í gæsluvarðhaldi, getur hún þá tryggt öryggi mitt og annarra á meðan þeir ganga lausir?“
„Lögreglan getur ekki tryggt öryggi þar sem það er ekki hægt að tryggja öryggi neins.“
Ekki stendur á svari frá lögreglunni, sem segir þetta allt satt og rétt en lögreglan geti ekki tryggt öryggi fólks. „Lögreglan getur ekki tryggt öryggi þar sem það er ekki hægt að tryggja öryggi neins. Við getum hinsvegar gert okkar besta þegar kemur að rannsóknum mála og nýtt öll þau rannsóknarúrræði sem mögulegt er að nýta hverju sinni.“
Þórdís gat ekki leynt undrun sinni á svörum lögreglunnar: „Ég rak upp stór augu við að lesa útskýringu ykkar þess efnis að lögreglan geti ekki tryggt öryggi neins, hér ofar í spjallþræðinum. En málið virðist þó kýrskýrt í orðum Ríkislögreglustjóra, sem skilgreinir öryggishlutverkið sem „meginverkefni lögreglunnar en það felur í sér að gæta almannaöryggis, halda uppi lögum og reglu, að tryggja réttaröryggi borgaranna og vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni og hvers konar lögmæta starfsemi“ (úr Skilgreining á grunnþjónustu lögreglunnar). Liður í því að gæta almannaöryggis og tryggja réttaröryggi borgaranna í þessu máli væri að krefjast gæsluvarðhalds yfir mönnum sem grunaðir eru um stórhættuleg og ítrekuð kynferðisbrot. Ellegar er hætta á því að skilaboðin til samfélagsins verði þau að konur - sem vilja ekki að sakborningarnir ráðist á sig - eigi engra annarra kosta völ en að sitja „í gæsluvarðhaldi“ heima hjá sér á meðan þeir ganga lausir.“
Lögreglan hefur ekki svarað þessu frekar, en þræðinum sem inniheldur um 70 innlegg, hefur verið deilt um 350 sinnum, auk þess sem tæplega 5.500 hafa líkað við hann. Þetta innlegg er þó langt frá því að vera það eina á síðu lögreglunnar um þetta mál, en það má segja að það rigni yfir lögregluna fyrirspurnum og færslum þar sem fólk lýsir reiði, undrun eða vonbrigðum.
Grundvallarmarkið að tryggja öryggi
Líkt og fram hefur komið ætlaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að fara yfir málið í hádeginu í dag til að athuga hvort einhver mistök hafi verið gerð við rannsókn þess. Ekki hefur verið greint frá niðurstöðum fundarins að svo stöddu.
Rétt í þessu barst þó tilkynning frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem fram kom að málin eru í algjörum forgangi hjá kynferðisbrotadeild embættisins og allt kapp lagt á að upplýsa þau. Það sé grundvallarmarkmið lögreglu að tryggja öryggi borgara.
„Rannsókn þeirra miðar vel, en eðli málsins samkvæmt getur lögreglan hins vegar ekki upplýst um málsatvik, meðal annars með tilliti til meintra þolenda. Nauðsynlegt er þó að taka fram að sumt í umfjöllun fjölmiða er ekki í samræmi við fyrirliggjandi rannsóknargögn lögreglu.
Lögreglan hefur fundið fyrir mjög sterkum viðbrögðum í samfélaginu í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla um áðurnefnd mál, og hafa henni borist fjölmargar fyrirspurnir áhyggjufullra borgara vegna þessa, ekki síst á samfélagsmiðlum embættisins. Það er skiljanlegt og undirstrikar mikilvægi þess að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haldi stöðugt áfram að vinna að grundvallarmarkmiði sínu, sem er að tryggja öryggi og öryggistilfinningu þeirra sem búa, starfa og dvelja í umdæmi hennar.“
Boðað hefur verið til mótmæla við lögreglustöðina í dag klukkan 17 vegna málsins.
Athugasemdir