Kolbeinn Óttarsson Proppé steig fram á Facebook fyrir skömmu og lýsti því yfir að hann væri gjaldþrota. Hann segir það vera erfiðustu spor sem hann hefur stigið í lífinu en hann sé hættur að vera í afneitun, búinn að vera edrú í rúm tvö ár og loksins tilbúinn að horfast í augu við lífið eins og það er, með hæðum og lægðum. Langvarandi alkóhólismi hafi sett sitt mark á líf hans en nú sé komið að því að gefa lífinu til baka.
Til að skilja hvernig alkóhólismi þróast og veldur því að fólk missir tök á lífi sínu er oft vænlegast að byrja á byrjuninni, fara alla leið aftur í æskuna. Kolbeinn segist hafa alist upp „úti um allt“, í Reykjavík, á Dalvík, í Hafnarfirði, á Siglufirði og í Kópavogi. Grunnskólarnir voru fimm og hann var ári á undan jafnöldrum sínum í skóla. „Maður vandist því fljótt að vera nýi gaurinn í skólanum og það kannski mótaði mann að einhverju leyti en ég held þetta sé samt aðallega bara mitt eðli; ég á mjög erfitt með að vera lengi á sama stað og þarf alltaf að vera að prófa eitthvað nýtt. Grasið er alltaf aðeins grænna hinu megin.“
Athugasemdir