Fjöldi eldri borgara hyggst yfirgefa vinnumarkaðinn eftir áramótin vegna þess að Alþingi samþykkti breytingar á lögum um almannatryggingar sem gera þeim óhagstætt að stunda vinnu.
Breytingarnar, sem taka gildi um áramót, munu hafa í för með sér að frítekjumark er lækkað svo mikið að nánast tilgangslaust er fyrir fólk að reyna að starfa meðfram lífeyrisgreiðslum. Þannig mun ríkið taka minnst 820 krónur af hverjum 1000 krónum eftir að þeir ná 25 þúsund króna frítekjumarki.
„Ég get ekki hugsað mér að sitja heima og gera ekki neitt,“ segir Carl Bjarni Rasmusson, sem neyðist til að hætta að vinna.
Sagðir hagnast á breytingunum
Stjórnvöld hafa haldið því fram að verið sé að auka framlög til eldri borgara um 11 milljónir, en gagnrýnendur lagabreytinganna segja eldri borgara sjálfa standa straum af þeim kostnaði.
Frítekjumarkið í núverandi lögum er 109 þúsund krónur. Fyrir hverja krónu umfram 109 þúsund sem eldri borgari vinnur sér inn eru lífeyrisgreiðslur hans svo skertar um eina krónu. Svokallað „krónu á móti krónu“. Með nýju lögunum er hins vegar frítekjumarkið lækkað niður í 25 þúsund krónur, eftir það tekur við skerðing upp á 45%, sem svo stighækkar í 100% þegar viðkomandi er kominn í 531.406 krónur í heildartekjur.
Skerðingin sem tekur gildi um áramótin, virkar í einföldu máli þannig að fyrir hverjar 1.000 krónur sem eldri borgari vinnur sér inn umfram 25 þúsund krónur eru fyrst teknar 450 krónur af honum í skerðingu og svo 370 krónur í skatt. Þá eru eftir 180 krónur. Eldri borgarar sem Stundin ræddi við segja að með breytingunum sé hreinlega verið að þvinga fólk sem vill stunda vinnu út af atvinnumarkaði.
Athugasemdir