Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, telur að grein sín um Guðmundar- og Geirfinnsmál frá 2011, þar sem hann kemur rannsóknaraðilum og dómstólum til varnar, eldist vel. Frá þessu greinir hann í umræðum á Facebook þar sem hæðst er að greininni. „Þetta eldist nefnilega mjög vel,“ skrifar Brynjar og bætir við: „Sumir láta ekki undan öllu garginu.“
Á föstudaginn féllst endurupptökunefnd á endurupptöku á dómum sem þeir Kristján Viðar Júlíusson, Sævar Marinó Ciesielski, Tryggvi Rúnar Leifsson, Guðjón Skarphéðinsson og Albert Klahn Skaftason hlutu í Guðmundar og Geirfinnsmálunum á áttunda áratug síðustu aldar. Í úrskurði nefndarinnar er því lýst með ítarlegum hætti hvernig lögregla beitti sakborningana harðræði og aðferðum sem ekki voru til þess fallnar að leiða sannleikann í ljós. Fram kemur að lögregla hafi ítrekað brotið gegn réttindum sakborninga, meðal annars gegn lagaákvæðum um lengd yfirheyrslna og lagafyrirmælum um að svör manna við spurnum væru skilmerkilega og orðrétt færð í letur. Þá er því lýst hvernig staðið var að einangrunarvist sakborninga, en nefndin telur að harðræðið hafi haft áhrif á andlega og líkamlega heilsu þeirra. „Endurupptökunefnd telur að ónákvæm skráning og skortur á skráningu fjölmargra yfirheyrsla, viðtala og annarra samskipta rannsóknarmanna og annarra við dómfelldu á löngum tímabilum varpi mikilli rýrð á trúverðugleika rannsóknarinnar í heild,“ segir í úrskurðinum.
Niðurstöður endurupptökunefndar eru að miklu leyti í takt við niðurstöður starfshóps innanríkisráðuneytisins sem kynntar voru árið 2013. Í skýrslu starfshópsins var því t.d. lýst hvernig Sævar Ciesielski sætti gæsluvarðhaldi í 1533 daga, þar af 615 daga í einangrun í Síðumúlafangelsi og var yfirheyrður í samtals 320 klukkustundir. Var höfði Sævars dýpt í kalt vatn, hann sleginn af fangaverði og honum haldið vakandi svo sólarhringum skipti auk þess sem hann fékk ótæpilega lyfjagjöf.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, skrifaði pistil um Guðmundar- og Geirfinnsmál á Pressuna árið 2011. Þar tekur hann upp hanskann fyrir rannsakendur og gerir lítið úr ásökunum um að sakborningar hafi verið beittir verulega harðræði. Þá fullyrðir hann að „allt tal um dómsmorð, illvirki dómara, þvinganir og harðræði lögreglu í því skyni að fá fram játningar í Guðmundar-og Geirfinnsmálinu“ sé „ekkert annað en aðdróttanir sem ekki verður séð að fái stuðning í gögnum málsins.“ Telur Brynjar „óskiljanlegt hvernig vegið hefur verið að þeim mönnum sem stýrðu rannsókn málanna og dæmdu þau í héraði og Hæstarétti“.
Sem fyrr segir telur Brynjar að skrif sín eldist vel þrátt fyrir að bæði starfshópur innanríkisráðuneytisins og endurupptökunefnd hafi gert grein fyrir harðræði og óvönduðum vinnubrögðum rannsóknaraðila með ítarlegum hætti síðan greinin var skrifuð.
Athugasemdir