Sá hópur aldraðra og öryrkja sem þarf sjaldan á heilbrigðisþjónustu að halda mun þurfa að borga hálfum milljarði meira fyrir þjónustuna á ári hverju ef fyrirhugaðar breytingar á greiðsluþátttökukerfinu í heilbrigðisþjónustu verða að veruleika. Hið opinbera mun ekki leggja nýja kerfinu til aukið fjármagn heldur flytja kostnað milli sjúklingahópa. Gert er ráð fyrir að kostnaður þeirra 15 prósenta sjúklinga sem nota þjónustuna mest muni lækka og að kostnaðurinn dreifist á hin 85 prósentin.
Þetta er á meðal þess sem fram kom á málþingi Öryrkjabandalags Íslands um greiðsluþátttökukerfið í gær. Á meðal þeirra sem töluðu var Gunnar Alexander Ólafsson, heilsuhagfræðingur sem nýverið vann skýrslu um greiðsluþátttökukerfið fyrir Öryrkjabandalagið. Fram kom í máli hans að á tuttugu ára tímabili, frá 1984 - 2014 hefðu heilbrigðisútgjöld heimilanna aukist um 275% á föstu verðlagi. Á sama tíma hefðu heilbrigðisútgjöld hins opinbera hækkað um 97%. Kostnaðurinn við heilbrigðiskerfið hefði því færst í auknum mæli frá ríkissjóði og til heimila.
Athugasemdir