Alþingi samþykkti tillögu Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra um skipan 15 dómara við Landsrétt með 31 atkvæði á móti 22 atkvæðum í kvöld.
Málið var keyrt í gegnum þingið í miklum ágreiningi á tveimur dögum og kröfur minnihlutans um að gefinn yrði lengi tími til umfjöllunar þess slegnar út af borðinu. Fram að þessu hafði undirbúningur nýs millidómsstigs farið fram í þverpólitískri sátt, bæði í ráðherratíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Ólafar Nordal heitinnar.
Tillaga Sigríðar Andersen um skipan dómara fól í sér að fjórum umsækjendum, sem nefnd um dómnefnd hafði metið í hópi 15 hæfustu umsækjenda, var skipt út fyrir aðra fjóra umsækjendur sem allir eru starfandi héraðsdómarar. Þetta gerði ráðherra undir þeim formerkjum að hún teldi nefndina ekki hafa gefið dómarareynslu nægilegt vægi í hæfnismati sínu.
Jóhannes Karl Sveinsson hæstaréttarlögmaður benti á það í umsögn sinni um málið á þriðjudag að hrókeringar ráðherrans stönguðust á við forsendurnar sem gefnar væru. „Umsækjanda sem metinn var númer 7 í mati hæfnisnefndar er til dæmis hent út úr hópi kandidata en aðrir með minni dómarareynslu eru látnir í friði. Dómnefndin er virt að vettugi og allar almennar stjórnsýslureglur látnar lönd og leið,“ skrifaði hann.
Jón Höskuldsson héraðsdómari lenti í 9. sæti á lista dómnefndarinnar en verður ekki skipaður dómari. Í bréfi sem hann sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á mánudag segir Jón á að hrókeringar ráðherra stangist á við rökstuðning hennar sjálfrar. „Meðal þeirra sem ráðherra gerir tillögu um er héraðsdómari sem sem skipaður var sama dag og undirritaður og hefur því gengt embætti héraðsdómara nákvæmlega jafn lengi. Breyting ráðherra á niðurstöðu dóm nefndar er því öðrum þræði á skjön við eigin rökstuðning,“ skrifar hann.
Kjarninn birti á þriðjudag lista dómnefndarinnar yfir umsækjendur í hæfnisröð.
Samkvæmt tillögunni sem Alþingi samþykkti í kvöld var karlmaður, Jón Finnbjörnsson, sem lenti í 30. sæti á lista dómnefndarinnar færður upp fyrir fimm konur sem metnar höfðu verið hæfari en hann. Bent hefur verið á að Jón er eiginmaður Erlu S. Árnadóttur sem var vinnuveitandi Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra til margra ára hjá lögmannsstofunni Lex. Jafnframt var Arnfríður Einarsdóttir, eiginkona Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, skipuð dómari, en hún hafði lent í 18. sæti á lista dómnefndarinnar þrátt fyrir margra ára reynslu af dómarastörfum.
Stjórnarandstaðan kallaði í dag eftir nákvæmari og ítarlegri rökstuðningi fyrir vali ráðherra á dómurum, en sérfræðingar sem komu fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd höfðu bent á að færa þyrfti ítarleg rök fyrir því að bregða frá mati dómnefndar við skipan dómara og ráðherra þyrfti að rækja rannsóknarskyldu stjórnsýsluréttar; ellegar gæti framkvæmdin bakað ríkinu skaðabótaskyldu.
Stjórnarliðar töldu hins vegar rökstuðninginn sem fram hafði komið nægja. Þá réttlættu þeir val ráðherra á umsækjendum með vísan til kynjasjónarmiða. Bent var á að með tillögu ráðherra væri verið að skipa fleiri konur en verið hefði ef mati hæfisnefndarinnar hefði verið fylgt.
„Listinn þar sem eru sjö konur af
hæfu fólki hlýtur að vera betri“
„Á öðrum listanum eru átta karlar og sjö konur og á hinum listanum eru tíu karlar og fimm konur,“ sagði Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu. „Það er gamla Ísland. Ég segi: listinn þar sem eru sjö konur af hæfu fólki hlýtur að vera betri.“ Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra og fleiri tóku í sama streng.
Guðrún Ágústa Þórdísardóttir, varaþingmaður Pírata, brást harkalega við þessum málflutningi. „Að ætla að fara að klæða þetta fúsk í einhvern jafnréttisbúning er algerlega út í móa og hreinlega móðgandi fyrir konur,“ sagði hún.
Eftirtaldir þingmenn og varaþingmenn greiddu atkvæði með tillögu ráðherra:
Albert Guðmundsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Benedikt Jóhannesson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Bjarni Halldór Janusson, Björt Ólafsdóttir, Eva Einarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Hildur Sverrisdóttir, Jón Gunnarsson, Jón Steindór Valdimarsson, Jóna Sólveig Elínardóttir, Jónína E. Arnardóttir, Karen Elísabet Halldórsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason, Óttarr Proppé, Pawel Bartoszek, Páll Magnússon, Sigríður Á. Andersen, Teitur Björn Einarsson, Theodóra S. Þorsteinsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Vilhjálmur Bjarnason, Þorsteinn Víglundsson, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir
Athugasemdir