Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, hefur lagt fram fyrirspurn til skriflegs svars þar sem hún spyr Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hvort hann hyggist biðja landsmenn afsökunar á að íslenska ríkinu hafi verið skipað í hóp stuðningsríkja innrásarstríðsins gegn Írak árið 2003.
Er vísað til þess í fyrirspurninni að Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, baðst nýverið afsökunar á rangri upplýsingagjöf í aðdraganda stríðsins.
Spurning Svandísar til Sigmundar hljóðar svo: „Mun ráðherra, í ljósi þess að Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðhera Bretlands, hefur beðist afsökunar á rangri upplýsingagjöf til bresks almennings í aðdraganda Íraksstríðsins sem hófst árið 2003, gangast fyrir sambærilegri afsökunarbeiðni stjórnvalda til Íslendinga sökum þess að sömu blekkingar voru nýttar til að skipa íslenska ríkinu í hóp stuðningsríkja árásarstríðsins gegn Írak?“
Athugasemdir