Hjónin Jón Óttar Ragnarsson og Margrét Hrafnsdóttir hafa ekki greitt um 300 þúsund króna skuld við blómabúð á höfuðborgarsvæðinu. Eigendur búðarinnar staðfesta þetta í samtali við Stundina en kjósa að tjá sig ekki um skuldina utan þess að þeir hafi mikið reynt að sækja hana, en án árangurs. Um er að ræða fjölskyldufyrirtæki í minni kantinum og því ljóst að málið kom sér illa fyrir þá sem standa að baki blómabúðinni. Gefa þeir til kynna að þeir hafi að lokum gefist upp á að innheimta skuldina og vilji því setja málið að baki sér.
Skuldin er tilkomin vegna blóma í brúðkaupi þeirra hjóna sem fór fram í lok árs 2013. Alls nam kostnaður vegna blóma í brúðkaupinu um hálfri milljón króna. 200 þúsund krónur hafa verið greiddar af þeirri upphæð.
Skuld hjónanna við blómabúðina vekur athygli vegna þess að Jón Óttar hefur verið að kaupa hluti í fjölmiðlum. Þann 30. desember var greint frá því á Pressunni að Jón Óttar hefði fjárfest í tíu prósenta hlut í Pressunni. „Jón Óttar hefur keypt nýtt hlutafé í Pressunni sem var gefið út í tilefni af kaupum félagsins á stærstum hluta hlutafjár í DV ehf. Eftir kaupin á Jón Óttar um ellefu prósenta hlut í Pressunni,“ segir í frétt Pressunnar.
Björn Ingi Hrafnsson, helsti eigandi Pressunnar, er mágur Jóns Óttars.
Athugasemdir