Rúmlega tólf hundruð manns hafa nú skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að veita Seibel-fjölskyldunni, sem send var úr landi þann 26. apríl síðastliðinn, hæli á Íslandi. Hjónin Irena og Vladimir Seibel flúðu hingað til lands vegna trúarofsókna í heimalandinu, Úsbekistan, í ágúst á síðasta ári ásamt börnum sínum þremur, Milinu, níu ára, og tvíburunum Samir og Kemal, sem eru sex ára. Fyrir rúmum mánuði var þeim síðan vísað úr landi án þess að umsókn þeirra um hæli væri tekin til meðferðar. Þau höfðu þá búið á landinu í átta mánuði, börnin þrjú gengið í skóla, stundað íþróttir og lært íslensku. Líklegt er að þeim verði refsað fyrir að hafa reynt að skipta um búsetuland.
Það eru starfsmenn Akursskóla í Innri-Njarðvík sem standa fyrir undirskriftasöfnuninni en börnin voru öll nemendur við skólann. Þá hófu starfsmennirnir einnig söfnun handa fjölskyldunni og hafa sent henni peninga til Frakklands fyrir mat og skjóli.
„Ef það hefði ekki verið fyrir aðstoð vina okkar og kennara á Íslandi þá værum við á götunni,“ segir Irina í samtali við Stundina.
Athugasemdir