Að minnsta kosti níu eru látnir og fimmtíu særðir eftir að vörubíl var keyrt inn á jólamarkað í Berlín, höfuðborg Þýskalands, fyrr í kvöld. Lögreglan telur að þetta hafi verið með vilja gert frekar en að slys hafi átt sér stað. Sjónarvottar lýsa atburðinum þannig að flutningabílnum hafi verið ekið á fullum hraða inn í mannhafið með þeim afleiðingum að fjölmargir urðu undir. Tveir menn voru í bílnum og er annar þeirra á meðal hinna látnu en hinn hefur verið handtekinn.
Jólamarkaðurinn við Breitscheidtplatz er nærri aðalverslunargötu borgarinnar – Kurfürstendamm – í vesturhluta borgarinnar. Markaðurinn er einn af helstu áfangastöðum þeirra ferðamanna sem heimsækja borgina á þessum árstíma. Þá sækja fjölmargir Berlínarbúar markaðinn árlega. Íbúar borgarinnar eru margir hverjir mjög slegnir.
Lögreglan hefur biðlað til borgarbúa að halda sig fjarri svæðinu þar sem sjúkrabílar þurfi að hafa greiðan aðgang. Michael Müller, borgarstjóri Berlínar, segir lögregluna nú hafa fulla stjórn á aðstæðum. Lögreglan hefur greint frá því að flutningabíllinn sé á pólskum númerum og í eigu pólsks flutningafyrirtækis. Hann hafi haldið af stað til Berlínar frá Póllandi fyrr í dag eða þar til fyrirtækið missti samband við bílstjórann um fjögur leytið að staðartíma. Talið er mögulegt að bílnum hafi verið stolið á þeim tíma.
Athugasemdir