Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar felur hvorki í sér fyrirheit um að boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið né að látið verði reyna á uppboðsleið í sjávarútvegi. Hvort tveggja var á meðal helstu stefnumála Bjartrar framtíðar og Viðreisnar í þingkosningunum sem fram fóru þann 29. október síðastliðinn.
Í stjórnarsáttmálanum er hnykkt á því að við ráðstöfun nýtingarréttinda á auðlindum í opinberri eigu skuli ekki „gengið á eignar- og nýtingarrétt einstaklinga nema brýnir almannahagsmunir krefjist þess“. Fram kemur að núgildandi fiskveiðistjórnarkerfi hafi skilað miklum þjóðhagslegum ávinningi og ríkisstjórnin telji kosti aflamarkskerfisins mikilvæga fyrir áframhaldandi verðmætasköpun í sjávarútvegi.
„Kannaðir verða kostir þess að í stað ótímabundinnar úthlutunar verði byggt á langtímasamningum og samhliða verði unnið að mati á þeim kostum sem tækir eru, svo sem markaðstengingu, sérstöku afkomutengdu gjaldi eða öðrum leiðum, til að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna. Gæta þarf að langtímarekstraröryggi í greininni og stöðugleika í byggðum,“ segir í kafla stefnuyfirlýsingarinnar um sjávarútvegsmál.
Í kaflanum um Evrópumál er tekið fram að ef þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið verði lagt á Alþingi séu stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins.
„Ríkisstjórnin mun byggja samstarf við Evrópusambandið á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Fylgjast þarf vel með þróun Evrópusambandsins á næstu árum og gæta í hvívetna hagsmuna Íslands í samræmi við aðstæður hverju sinni. Sérstakan gaum þarf að gefa mögulegri úrsögn Bretlands úr sambandinu,“ segir í stjórnarsáttmálanum. „Alþingi fylgist grannt með þróun mála í Evrópu og efli tengsl við systurstofnanir í öðrum Evrópuríkjum. Komi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins. Stjórnarflokkarnir kunna að hafa ólíka afstöðu til málsins og virða það hver við annan.“
Athugasemdir