Sumarfrí, sól, strönd, útilega eða bústaður, já eða bara kaffihúsahangs í miðbænum, allt kallar þetta á að hafa við höndina góða bók sem hægt er að sökkva sér ofan í til að fullkomna þá upplifun að maður hafi allan tíma í heimi og að allar skyldur séu víðsfjarri. Vandamálið er bara að ákveða hvaða bók eða bækur verða fyrir valinu.
Úrvalið af nýútkomnum bókum, bæði þýðingum og íslenskum skáldverkum, hefur aldrei verið meira og það er eðlilegt að fallast nánar hendur frammi fyrir kúfuðum borðum bókabúðanna þegar finna á sér heppilegt lesefni í fríið. Flestir hafa þó nokkuð ákveðnar skoðanir á því hvers kyns bækur henti þeim best, sumir vilja bara lesa spennubækur og glæpasögur, aðrir fantasíur og furðusögur, enn aðrir skvísubækur og ástarsögur og svo eru það sérvitringarnir sem vilja lesa „almennilegar“ bókmenntir jafnvel þótt þeir séu í sumarfríi. Ég kíkti á úrvalið í hverjum flokki fyrir sig og þar er sannarlega úr nógu að velja hvar sem borið er niður.
Spenna, spenna, spenna
Sumarkrimmarnir bókstaflega flæða á markaðinn þessar vikurnar og þar eru norrænir höfundar langsamlega fyrirferðarmestir, þótt annarra þjóða höfundar eigi eina og eina bók í stöflunum.
Joe Nesbö gefur Harry Hole frí í Blóð í snjónum og það er hætt við að marga aðdáenda hans reki í rogastans yfir þessari knöppu og frábærlega skrifuðu sögu af leigumorðingjanum Ólafi og raunum hans. Það er þó alveg hægt að lofa bæði þeim og öðrum lesendum að Nesbö svíkur þá ekki um spennuna og lýsingar á seinheppnum persónum, auk þess sem hann fer hér bókstaflega á kostum í stíl og byggingu. Hættið því að hugsa um Hole í bili og hleypið Ólafi inn í heim ykkar, þið sjáið ekki eftir því.
Athugasemdir