Magnús Már Guðmundsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar og fulltrúi í mannréttindaráði og velferðarráði Reykjavíkurborgar, segir að þau rasísku viðhorf stjórnarmanna Fjölskylduhjálpar Íslands sem Stundin fjallaði um í gær séu óboðleg fyrir samtök sem Reykjavíkurborg styrkir.
„Reykjavíkurborg styrkir Fjölskylduhjálp Íslands um eina til tvær milljónir á ári. Ég get hins vegar ekki betur séð en að það þurfi að rýna vel í það berist ný umsókn frá Fjölskylduhjálpinni,“ segir Magnús í samtali við Stundina og vísar til þess að mannréttindastefna Reykjavíkurborgar skal höfð að leiðarljósi við mat á umsóknum um styrki. „Þessi viðhorf sem þarna birtast eru óboðleg fyrir samtök sem borgin styrkir. Þær stöllur geta að minnsta kosti hrósað happi yfir því að ég sitji ekki í nefndinni sem mun fara yfir styrkumsóknirnar.“
Stundin greindi frá því í gær að Anna Valdís Jónsdóttir, stjórnarmaður í Fjölskylduhjálp Íslands hefði hringt inn á Útvarp Sögu til þess að dreifa rógburði um skjólstæðinga hjálparsamtakanna. „Þetta hljóta að vera bara stríðsglæpamenn,“ sagði Anna Valdís Jónsdóttir um útlendinga sem þegið höfðu matargjafir. Þá hafa bæði hún og Ásgerður Jóna Flosadóttir, framkvæmdastjóri Fjölskylduhjálpar, dreift áróðri gegn múslimum á samfélagsmiðlum. Ásgerður Jóna hefur jafnframt verið á framboðslistum fyrir flokka sem sætt hafa gagnrýni fyrir kynþáttafordóma.
„Það þarf að stöðva svona dólga“
Magnús Már vakti athygli á frétt Stundarinnar á Facebook-síðu sinni í gær og beindi sjónum að styrkjum Reykjavíkurborgar til Fjölskylduhjálpar. „Það er ofboðslega sorglegt að lesa um þessa afstöðu stjórnarmanna Fjölskylduhjálpar Íslands. Að fólk sem gefur sig út fyrir að þjónusta fólk í neyð á vegum hjálparsamtaka leyfi sér slíka hatursorðræðu hræðir mig,“ segir hann í samtali við Stundina. „Ekki bara út af þessu tiltekna máli, heldur einnig vegna þess hvernig það beinir sjónum að því hvernig rasismi er orðinn hluti af raunveruleika okkar hér á landi. Ef við mótmælum ekki harðlega þegar við heyrum ummæli sem þessi þá erum við í þögn okkar að samþykkja þau – og greiða götu fordóma og haturs til að festa sig í sessi. Það þarf að stöðva svona dólga.“
Athugasemdir