Hótelið Reykjavík Hotel Center í Skipholti hefur verið rekið án tilskildra leyfa í marga mánuði, en samkvæmt heimasíðu hótelsins hófst rekstur þess þann 10. júní. Sigurður G. Hafstað, lögmaður hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir þetta í skriflegu svari til Stundarinnar. Ekkert rekstrarleyfi hefur verið veitt fyrir gistiheimilið að Skipholti 27. Þrátt fyrir það er hótelið með sérstaka síðu á vef ferðahandbókaútgefandans Lonely Planet. Á heimasíðu hótelsins eru tenglar á bókunarsíðuna Booking.com, en svo virðist sem hótelið hafi nýverið verið fjarlægt af þeirri síðu.
Eigandi hótelsins, Sigurkarl Bjartur Rúnarsson, hélt því ranglega fram í samtali við Stundina að hótelið hefði tilskilin leyfi þegar óskað var eftir viðbrögðum frá honum. Þegar honum var greint frá svari sýslumanns sagði hann að málið væri flókið: „Þetta er ekki alveg svona einfalt. Þetta er ágreiningsmál við eigendur hússins. Þetta er miklu, miklu stærri saga,“ segir Sigurkarl Bjartur.
Ljóst er að þótt sýslumanni sé kunnugt um starfsemi hótelsins er það enn starfandi.
Athugasemdir