Árið 2014 slösuðust þrír ferðamenn frá Kína lítillega í umferðarslysum á þjóðvegum landsins en í fyrra voru þeir 36. Þar af voru 6 sem slösuðust alvarlega, 29 sem slösuðust lítillega og einn sem lést. Þá lést einn ferðamaður frá Japan á síðasta ári, einn slasaðist alvarlega og sjö lítillega í fyrra sem er aukning frá árinu áður. Sömu sögu er að segja af ferðamönnum frá Hong Kong en í fyrra lést einn ferðamaður og sjö slösuðust lítillega. Þessi gríðarlega aukning hefur vakið áhyggjur fjölmargra, þar á meðal Samgöngustofu, innanríkisráðuneytisins, tryggingafélaganna og þeirra fyrirtækja sem leigja út bifreiðar til ferðamanna.
„Eftir rúma klukkutíma kennslu þá ók hann af stað. Stuttu seinna velti hann bílnum á Reykjanesbrautinni“
En hver er skýringin? Eftir því sem blaðamaður Stundarinnar kemst næst er um að kenna vankunnáttu þessara ökumanna sem virðast í einhverjum tilfellum aðeins sitja námskeið í heimalandi sínu til þess að öðlast ökuréttindi en hafa aldrei setið undir stýri. Þá hefur einhver hluti af umræddum hópi ökumanna tekið ökupróf í sérstökum ökuhermi ytra en þar virðist ekki gert ráð fyrir að ekið sé í hálku eða á malarvegum.
Meðal þeirra sem Stundin ræddi við voru starfsmenn bílaleiga á Keflavíkurflugvelli en það eru þeir sem sjá um að afhenda ferðamönnum bílaleigubíla þegar þeir lenda hér á landi. Í flestum tilvikum ganga slíkar afhendingar snuðrulaust fyrir sig og eru menn orðnir ansi lunknir við að afhenda töluverðan fjölda bílaleigubíla á stuttum tíma. Að undanförnu hefur þó þessi tími lengst töluvert líkt og Stundin komst að en þó er ekki að sakast við starfsmenn bílaleigunnar heldur er um að kenna vankunnáttu þeirra ökumanna sem taka umrædda bíla á leigu. Sumir, eins og áður segir, hafa hreinlega aldrei sest undir stýri á alvöru bíl.
Athugasemdir