„Ég man tilfinninguna vel, þegar ég ákvað að vera hamingjusöm,“ segir Hrund Þórsdóttir, aðstoðarritstjóri fréttastofu Stöðvar 2. Systir hennar, Sunna, sem stóð henni afar nærri, hafði látist í bílslysi aðeins 13 ára gömul. Andlát hennar tók sinn toll af allri fjölskyldunni og um tíma var Hrund langt niðri. „Það fylgdu erfiðir hlutir í kjölfarið, enda hefur svona stórt áfall margs konar áhrif en við náðum að vinna úr þeim.“
Sama dag og Hrund ræðir við blaðamann Stundarinnar eru þrettán ár liðin frá andláti Sunnu. Yngri systir hennar er henni því ofarlega í huga þennan daginn. Brotthvarf hennar hafði mikil áhrif á Hrund, sem tók eftir áfallið meðvitaða ákvörðun um að lifa lífinu betur og nýta tímann vel. „Ég lofaði henni að ég skyldi lifa lífinu fyrir okkur báðar,“ segir hún. Hrund skrifaði bók byggða á þessari hugmynd, Loforðið, sem kom út árið 2007, en fyrir hana hlaut hún mikið lof og meðal annars Íslensku barnabókaverðlaunin. En það var ekki endilega hlaupið að því að uppfylla loforðið. „Ég hafði alltaf haft það mjög gott en ég þurfti á því að halda að taka til í höfðinu á mér og gera ákveðnar breytingar í lífi mínu. Það tók tíma að verða hamingjusamari, það gerðist ekki á einni nóttu. En ég var ákveðin í þessu, fór í markvissa sjálfsvinnu og lærði smátt og smátt betur inn á sjálfa mig. Ég er glaðari manneskja eftir það. Ég er sáttari með sjálfri mér.“
Athugasemdir