Ríkisstjórnin hyggst herða mjög á aðhaldskröfum í opinberum rekstri að því er fram kemur í fjármálaáætlun Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra sem kynnt var á föstudag. Að þessu leyti verður gengið lengra en í ríkisfjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar sem samþykkt var í fyrra. Á sama tíma verða þó framlög til ýmissa málaflokka, t.d. heilbrigðismála, talsvert meiri.
Í ríkisfjármálaáætlun Bjarna var almennt gert ráð fyrir árlegu 1 prósents veltutengdu aðhaldi að heilbrigðisstofnunum, háskólum og framhaldsskólum frátöldum þar sem aðhaldskrafan var 0,5 prósent.
Í fjármálaáætlun Benedikts Jóhannessonar er hins vegar gengið út frá 2 prósenta veltutengdu aðhaldi á næsta ári og eru það eingöngu heilbrigðis- og öldrunarstofnanir sem búa við 0,5 prósenta aðhaldskröfu. Þannig nær 2 prósenta aðhaldskrafan til framhaldsskólastigsins og háskólastigsins; þar verður aðhaldið þannig fjórum sinnum strangara en verið hefði samkvæmt ríkisfjármálaáætlun Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
Hjá nokkrum málefnasviðum hins opinbera munu útgjöld fara lækkandi á tímabilinu 2018 til 2022. Þetta á t.d. við um Alþingi og eftirlitsstofnanir þess, dómstólakerfið, sveitarfélög og byggðamál, ferðaþjónustumál, framhaldsskólakerfið og húsnæðisstuðning.
„Í áætluninni er gert ráð fyrir að draga úr útgjaldavexti málefnasviða ráðuneyta með árlegum aðhaldsmarkmiðum,“ segir í greinargerð fjármálaáætlunarinnar. „Þar eru frátaldir liðir sem tíðkast hefur að undanskilja aðhaldskröfu svo sem almannatryggingar, búvörusamningar og óreglulegir liðir á borð við lífeyrisskuldbindingar. Á árinu 2018 er gengið er út frá 2% veltutengdu aðhaldi, að heilbrigðis- og öldrunarstofnunum frátöldum þar sem aðhaldskrafan er 0,5%. Almenna aðhaldskrafan lækkar í 1,5% frá og með árinu 2019 en helst óbreytt fyrir heilbrigðis- og öldrunarstofnanir.“
Athugasemdir