HB Grandi, sem græddi 3,5 milljarða króna í fyrra eftir skatta og afskriftir, hefur sagt upp 86 starfsmönnum í botnfiskvinnslu á Akranesi í hagræðingarskyni, þrátt fyrir tilraunir bæjaryfirvalda til telja stjórnendum félagsins hughvarf með því að bjóða fram betri hafnaraðstöðu.
Uppsagnirnar eru „gríðarlegt högg“ fyrir Akranes, að sögn Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness. HB í nafinu HB Grandi stendur fyrir Harald Böðvarsson, sem var stórt útgerðarfyrirtæki á Akranesi. Félagið sameinaðist Granda í Reykjavík árið 2004 undir því fororði að fiskvinnsla héldi áfram á Akranesi. „Það er bara búið að reka okkur öll,“ sagði fiskvinnslukonan Elsa Hrönn Gísladóttir í samtali við Vísi. Starfsfólkinu var greint frá því að hugsanlega fengi það áframhaldandi starf í vinnslu fyrirtækisins í Reykjavík.
Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri félagsins, greindi starfsmönnum frá lokuninni á fundi seinni partinn í dag.
Mikill hagnaður
Síðustu þrjú ár hefur HB Grandi hagnast um meira en 15 milljarða króna.
Árið 2015 hagnaðist HB Grandi um 6,5 milljarða króna og árið 2014 5,6 milljarða króna eftir skatta og afskriftir. Hagnaðurinn var 5,7 milljarðar króna árið 2013.
HB Grandi er skráður eigandi að aflaheimildum að andvirði 15,4 milljörðum króna í bókhaldi félagsins. Kvóti félagsins er hins vegar skráður á kaupvirði en ekki markaðsvirði í bókhaldinu.
Félagið greiddi 828 milljónir króna í veiðigjöld árið 2015.
Að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða
Í ársskýrslu Granda er meðal annars tilgreint að það leitist við að stýra rekstraráhættu sinni, bæði vegna fjárhags og orðspors. „Samstæðan leitast við að stýra rekstraráhættu með hagkvæmum hætti til að forðast fjárhagslegt tap og til að vernda orðstír hennar.“
Fimm af tíu stærstu eigendum HB Granda eru lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóður verslunarmanna á 13,2 prósent í félaginu, Gildi lífeyrissjóður 7 prósent, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins á 6 prósent fyrir A-deild og 2,2 prósent fyrir B-deild og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda 2,1 prósent.
Útgerð Haraldar Böðvarssonar hefur átt 120 ára starfstíma á Akranesi, en hann hóf útgerð sína 17 ára gamall á sexæringnum Helgu Maríu og byggði upp elsta starfandi útgerðarfyrirtæki landsins á Akranesi.
Athugasemdir