Birgitta Jónsdóttir, forystukona í Pírötum, kennir Vinstri grænum um að það slitnaði upp úr stjórnarmyndunarviðræðum Pírata, VG, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar skömmu fyrir jól. „Getur einhver útskýrt fyrir mér muninn á Framsókn og VG þegar kemur að stefnumálum?“ spyr hún á Facebook og deilir frétt þar sem fjallað er um að formenn Vinstri grænna og Framsóknarflokksins hafi hist og rætt mögulega samstarfsfleti við Sjálfstæðisflokkinn. Greint var frá málinu í Morgunblaðinu í dag og staðfesti Katrín Jakobsdóttir í viðtali við Harmageddon að samtal um mögulegt samstarf hefði átt sér stað milli Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins.
Birgitta hefur undanfarnar vikur beint spjótum sínum að Vinstri grænum. „Mér sýnist nú, því miður, VG hafa ákveðið að taka sleggju og lemja sundur brúna sem við náðum að byggja á milli fólks,“ sagði hún í viðtali við Stundina þann 14. desember eftir að viðræður flokkanna fimm fóru út um þúfur.
Daginn eftir greindi Stundin frá því að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hefði boðað Katrínu á fund þann 12. desember og hvatt til þess að þau færu sameiginlega með þau skilaboð inn á fund formanna flokkanna að of langt væri á milli Viðreisnar og Vinstri grænna til að unnt væri að mynda ríkisstjórn. Á umræddum fundi var viðræðunum slitið og í kjölfarið sendi Viðreisn út fréttatilkynningu þar sem Vinstri grænum var kennt um. „Því miður náðist (…) ekki samstaða um mikilvæg efnisatriði. Einkum voru það áherslur VG í ríkisfjármálum, sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum sem stóðu fjarri áherslum hinna flokkanna,“ sagði í tilkynningunni. Aðspurð um málið sagði Katrín Jakobsdóttir í samtali við Stundina að það hefði komið sér „verulega á óvart þegar viðræðuslitunum var stillt þannig upp að frumkvæðið að þeim hefði einungis komið frá VG“.
Birgitta Jónsdóttir sagði á Facebook á dögunum að slitnað hefði upp úr fimmflokkaviðræðunum vegna þess að einn af þátttakendum þeirra hefði verið „flokkur sem vill ekki grundvallarbreytingar sem gat ekki hugsað sér að halda áfram með þessar samræður, ekki BF“. Þarna sagðist hún vísa til Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.
Í dag óskar Birgitta eftir því að einhver útskýri fyrir sér muninn á stefnumálum Framsóknarflokksins og Vinstri grænna. Stefnumál flokkanna má sjá á vefsíðum þeirra og eru um margt ólík þótt báðir flokkar aðhyllist félagshyggju að nafninu til.
Athugasemdir