Áslaug Björgvinsdóttir, fyrrverandi héraðsdómari, gagnrýnir vinnubrögð Ingimundar Einarssonar, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, harðlega í umsögn sinni um frumvarp innanríkisráðherra til laga um dómstóla. Áslaug telur frumvarpið ekki tryggja skilvirkt eftirlit með stjórnsýslu dómstólanna og nefnir mál dómstjórans í Reykjavík og málsmeðferð dómstólaráðs við rannsókn á störfum hans árið 2014 sem dæmi um geðþóttastjórnsýslu og misbeitingu valds af hálfu handhafa dómsvalds.
Eins og Stundin fjallaði um á dögunum réði Héraðsdómur Reykjavíkur lögfræðing með fjölskyldutengsl við dómstjórann í launalaust starf árið 2013. Ráðningin olli titringi meðal starfsmanna réttarins, bæði vegna tengslanna en einnig vegna þess að margir töldu ráðninguna vera á gráu svæði með tilliti til laga og kjarasamninga. Maðurinn, sem er systursonur eiginkonu dómstjórans, var fastráðinn við dóminn í febrúar á þessu ári án þess að starfið væri auglýst laust til umsóknar. Þegar Stundin spurði Ingimund um málið fór hann fram á að Stundin gæfi honum upp nafnið á heimildarmanni sínum og sagðist áður hafa fengið slíkar upplýsingar frá blaðamanni á öðrum fjölmiðli.
Áslaug Björgvinsdóttir, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur til margra ára, telur að með vinnubrögðum sínum hafi Ingimundur Einarsson dómstjóri annars vegar farið í bága við kjarasamninga og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins með ráðningu í launalaust starf og hins vegar hafi hann hvatt blaðamann til refsiverðs verknaðar með því að fara fram á að hann upplýsti um nafn heimildarmanns síns.
Koma megi í veg fyrir slík vinnubrögð í framtíðinni með umbótum á kerfinu og bættu eftirliti með stjórnsýslu dómara.
Athugasemdir