Samskipti Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og blaðamanns grínþáttarins Le Petit Journal á frönsku sjónvarpsstöðinni Calal+, hafa vakið athygli íslenskra fjölmiðla síðustu daga. Þar reynir Bjarni meðal annars að skýra fyrir blaðamanni hvernig íslenskt lýðræði virkar og leggur sérstaka áherslu það hversu oft Íslendingar hafa gengið að kjörborðinu síðustu ár.
Í því samhengi tiltekur hann fjórar alþingiskosningar á sjö ára tímabili. Ekki fæst hvernig þessi fullyrðing Bjarna fæst staðist en Íslendingar hafa einungis kosið tvisvar til Alþingis á síðustu sjö árum, fyrst árið 2009 og aftur 2013. Á sama blaðamannafundi sagði Bjarni að ríkisstjórnin „hygðist stefna“ að kosningum í haust. Að þeim kosningum meðtöldum er tæknilega hægt að tala um þrennar kosningar á sjö árum, ekki fernar.
Viðtal franska blaðamannsins við Bjarna hefur sem fyrr segir vakið athygli netverja. Þar spyr hann ráðherrann hvort hann telji að mótmælendur á Austurvelli muni sætta sig við þrásetu hans á ráðherrastóli. Bjarni svarar þessu ekki beint en bendir á að hann hafi þegar tilkynnt um að hann verði áfram ráðherra.
„En hvernig ætlarðu að gera það, þau munu ekki hætta að mótmæla fyrr en þú segir af þér?“ Bjarni spyr þá hvernig blaðamaðurinn viti það, hvort einhver hafi sagt honum það, og sá síðarnefndi svarar því til að það hafi allir mótmælendurnir fyrir utan þinghúsið raunar gert. „Þeir eru að kalla eftir afsögn þinni.“
Bjarni segir þvínæst að þeir muni fá að nýta sér kosningarétt sinn í lýðræðislegum kosningum næstkomandi haust. „Þannig að þú munt ekki segja af þér og ríkisstjórnin mun ekki fara frá?“ Bjarni svarar ekki spurningunni heldur snýr sér að öðrum erlendum blaðamönnum þar til blaðamaður Le Petit Journal grípur fram í og segir: „Þannig að þetta er lýðræðið á Íslandi.“
Bjarni, sem stendur í stiganum og horfir niður á blaðamanninn spyr þá: „Hvaðan ert þú?“ Þegar hann hefur greint frá frönskum uppruna sínum segir ráðherrann, „gott og vel, það er lýðræðisríki,“ og útlistar því næst íslenskar alþingiskosningar síðustu ára fyrir blaðamanninum franska. „Við héldum kosningar 2007, 2009, 2013 og nú 2016, þetta eru fjórar kosningar á sjö árum,“ segir Bjarni sem telur árin með fingrum annarrar handar. Sem fyrr segir eru útreikningar fjármálaráðherrans hinsvegar ekki réttir, en hann tiltekur níu ára tímabil, ekki sjö, og þar á meðal kosningar sem ekki hafa orðið og ekki verið tilkynnt um hvenær nákvæmlega þær munu fara fram.
Líkt og komið hefur fram skýrði Bjarni frá því á sama blaðamannafundi að ríkisstjórnin hygðist stefna að kosningum næstkomandi haust. Það færi hinsvegar eftir gangi þingmála hvenær þær yrðu. Margir hafa túlkað þessi orð sem óbeina hótun til stjórnarandstöðunnar um að væntanlegar kosningar séu háðar samstarfsvilja hennar.
„Við ætlum að stíga viðbótatarskref til þess að mæta kröfum um að virkja lýðræðið í landinu, til þess að komast til móts við þá stöðu sem hefur myndast, og hyggjumst stefna að því að halda kosningar í haust, stytta kjörtímabilið um eitt löggjafarþing. Nákvæm dagsetning á kosningunum mun ráðast af framvindu þingmálanna,“ sagði Bjarni þar sem hann stóð í stiganum. Ýmsir hafa bent á nauðsyn þess að sett verði nákvæm dagstetning á þessar kosningar en skemmst er að þjóðaratkvæðagreiðslunnar um evrópusambandsaðild sem ekkert varð úr þrátt fyrir kosningaloforð þess efnis af hálfu beggja stjórnarflokka.
Athugasemdir