Ferðamenn og sjúklingar á hinu fornfræga Hótel Íslandi við Ármúla, sem nú hefur verið breytt í sjúkrahótel að hluta, kvarta undan slæmum aðstæðum á hótelinu.
Í Fréttablaðinu þann 23. mars síðastliðinn var greint frá því að helgina 20. til 22. mars hefði sjúkrahóteli Landspítalans í húsnæði Hótel Íslands við Ármúla verið lokað vegna nóróveirusýkingar. Sjúklingur sem dvaldi fram að þessari helgi á sjúkrahótelinu segir í samtali við Stundina að þetta sé aðeins hálfur sannleikur, sjúklingum hafi verið vísað frá en ekki erlendum ferðamönnum. Aðeins hluti hótelsins er úthlutaður sjúklingum af Landspítalanum en í húsinu er einnig rekið almennt hótel, Hótel Ísland.
Samblanda af hótelrekstri og heilbrigðisstarfsemi
Bæði Stundin og DV hafa fjallað um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu sem endurspeglast einna helst í rekstrinum í Ármúlanum. Önnur og þriðja hæð hótelsins eru eyrnamerktar sjúklingum en ekki er óþekkt að sjúklingar dvelji á öðrum hæðum, til að mynda dvaldi umræddur sjúklingur á fjórðu hæð.
Sjúklingurinn sem Stundin ræddi við átti að fara heim til sín þann 23. mars en var látinn fara fyrr vegna nóróveirusýkingarinnar. Sjúklingurinn fullyrðir að erlendir ferðamenn hafi farið í herbergi hans.
Miklar framkvæmdir eiga sér nú stað í húsnæðinu en þar stendur til að opna læknamiðstöðina Klíníkin Ármúla. Stundin ræddi við tvo sjúklinga sem hafa dvalið á sjúkrahótelinu og hvorugur ber hótelinu góða söguna.
Athugasemdir