„Þetta er frábært tilfinning og frelsið sem ég hef núna er magnað,“ segir Friðrik Guðmundsson, 27 ára gamall Njarðvíkingur, sem hefur undanfarna fimm mánuði búið á lungnadeild Landspítalans eða frá því 27. mars. Friðrik er með sjaldgæfan vöðvarýrnunarsjúkdóm en hann fór í hjartastopp á páskadag og var í kjölfarið lagður inn á sjúkrahús.
Síðan þá hefur Friðrik þurft að nota öndunarvél allan sólarhringinn sem þýðir aukin umönnun en sú umönnun var ekki til staðar á sambýlinu þar sem hann bjó í Reykjanesbæ. Fjölga þurfti stöðugildum á sambýlinu en bæjaryfirvöld töldu óljóst hvernig aukningin yrði fjármögnuð og hvort það fjármagn ætti að koma frá ríkinu eða sveitarfélaginu sjálfu.
Á meðan varð Friðrik að bíða á lungnadeildinni. Lítil hreyfing var á málinu alveg þar til í júní en þá voru fjórir nýir starfsmenn ráðnir á sambýlið og hafa þeir verið í þjálfun undanfarnar vikur.
„Ég flutti aftur heim í tæka tíð fyrir Ljósanótt. Það var gaman að geta notið hennar með vinum mínum. Nú bý ég með bróður mínum og einum öðrum á Lyngmóa en þar hef ég búið síðan 1995,“ segir Friðrik sem, þrátt fyrir langa dvöl á Landspítalanum, saknar starfsfólksins sem var honum innan handar.
„Þau eru öll æðisleg og ég er enn í miklu sambandi við marga sem þarna starfa. Það er samt gott að vera kominn heim.“
Athugasemdir