Fjölmiðlafyrirtækið 365 greiðir rúmar tvær milljónir króna á mánuði fyrir sjónvarpsþáttinn Eyjuna sem sýndur er á Stöð 2 á hverjum sunnudegi. Þetta herma heimildir Stundarinnar. Samstarfssamningurinn á milli 365 og aðstandenda Eyjunnar er til þriggja ára en þátturinn hóf göngu sína á Stöð 2 fyrir tæpu ári síðan. Stjórnandi þáttarins er Björn Ingi Hrafnsson, einn af eigendum Pressunnar ehf. sem er móðurfélag útgáfufélags Eyjunnar, Vefpressunnar ehf. Heildarverðmæti þessa þriggja ára samnings hleypur því á milli 70 og 80 milljóna króna.
Greint var frá ætluðu samstarfi Eyjunnar og 365 í lok febrúar árið 2014 og átti það upphaflega einnig að fela í sér mánaðarlegt blað sem fylgja átti Fréttablaðinu en hætt var við þá hugmynd.
Segir trúnað ríkja um samninginn
Í byrjun janúar á þessu ári hafði vefmiðillinn Kjarninn eftir Birni Inga að í gildi væri „langtímasamningur“ um sjónvarpsþáttinn en ekki var greint því hversu langur samningstíminn væri.
Björn Ingi vill ekki svara spurningum um eðli samningsins og segir ákvæði hans vera trúnaðarmál: „Um samstarf Eyjunnar og 365 fer eftir viðskiptasamningi milli tveggja einkaaðila og ríkir trúnaður um hann, líkt og eðlilegt má teljast. En þetta er langtímasamningur, það er rétt. Ég hef því ekkert um málið að segja, utan að Fjölmiðlanefnd og Samkeppniseftirlitið gáfu grænt ljós á umrætt samstarf og höfðu samningana þá til grundvallar.“
Athugasemdir