Í nýútgefinni skáldsögu Guðmundar S. Brynjólfssonar, rithöfundar og djákna, Líkvöku, er að finna kafla þar sem ónefndum lögmanni er lýst á mjög neikvæðan hátt. Kaflinn fjallar um samskipti lögmannsins við stúlku sem er fíkniefnaneytandi í bata þegar hann táldregur hana. Í kaflanum eru birt brot úr Facebook-samskiptum þessa ónefnda lögmanns við stúlkuna.
Guðmundur segir í samtali við Stundina að við vinnslu kaflans hafi hann notast við Facebook-samskipti Sveins Andra Sveinssonar lögmanns við Ástríði Rán Erlendsdóttur. Ástríður tók eigið líf á Vogi í fyrra. Hún hafði verið edrú um nokkurt skeið en fallið stuttu fyrir innlögnina.
Guðmundur segir að hann hafi fengið að lesa Facebook-samskipti þeirra Sveins Andra og Ástríðar, en ítrekar að það séu aðeins þessi samskipti en ekki meginmál kaflans sem byggir á raunverulegum samskiptum þeirra tveggja. „Facebook-samskiptin sjálf eru sönn, hitt er skáldskapur,“ segir Guðmundur.
Móðir Ástríðar og amma sögðu sögu hennar í viðtali við Fréttablaðið í fyrra.
„Facebook-samskiptin sjálf eru sönn, hitt er skáldskapur“
Ekki haft orðrétt eftir
Kaflinn sem um ræðir nefnist Skilaboðaskjóðan og hefst svona: „Hann hafði grennst. Lögmaðurinn. Hafði áður verið feitur og kátur lögfræðingur með rétt sambönd. Var nú grannur lögmaður með röng sambönd. Hann óð í ungum stúlkum vegna endalausra auraráða sem gripin voru upp úr flór mannsvonsku og heiftar. Allt kostað af ríkinu. Allt sama pakkið líkt og lögmennirnir sem hafa hangið á fjárglæframönnum útrásartímans, með réttlætingar, greinarskrif, álitsgjafar, og svo þessir kónar sem nærast á skítnum; ég kalla allt þetta safn, mjaltakonur helvítis. Hann misnotaði þær, skemmdi þær, reið þeim og rangfærði hugmyndir þeirra um heiminn.“
Sveinn Andri kaus að tjá sig ekki málið þegar Stundin leitaði viðbragða hans.
Athugasemdir