„Eysteinn Jónsson hefði ekki viljað kannast við sinn flokk - Framsóknarflokkinn - í dag,“ segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, um frumvarpið til breytinga á lögum um náttúruvernd sem til stendur að, Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra, leggi fyrir Alþingi á næstunni. Eysteinn Jónsson var þingmaður Framsóknarflokksins í meira en 30 ár á fyrri og seinni hluta síðustu aldar var oftsinnis ráðherra á því tímabili.
Með lögunum á að breyta nátturuverndarlögum síðustu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna en þau eiga annars að taka gildi þann 1. júlí næstkomandi. Frumvarp Sigrúnar miðar hins vegar að því að breyting á lögunum verði leidd í lög fyrir gildistöku náttúruverndarlaga síðustu ríkistjórnar.
„Sú vinna gengur ágætlega og vonast ráðherra til að geta lagt frumvarpið fram fyrir þinglok.“
Í svari frá umhverfisráðuneytinu um hvenær frumvarpið verður lagt fram segir að stefnt sé að því að leggja það fram fyrir þinglok. „Verið er að vinna með þær umsagnir sem bárust á umsagnarfrestinum. Sú vinna gengur ágætlega og vonast ráðherra til að geta lagt frumvarpið fram fyrir þinglok. Þar sem málið er enn í vinnslu liggur ekki fyrir hvaða breytingar verða gerðar á frumvarpinu frá kynningu þess þ. 10. mars sl.“
Um frumvarp Sigrúnar segir Árni: „Drögin eru vissulega skárri en frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar um að afturkalla nýju lög um náttúruvernd sem eiga að taka gildi 1. júlí n.k., en jafnframt lýsir það algjöru metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum. “
Athugasemdir